143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

lagaskrifstofa Alþingis.

271. mál
[17:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu heldur einungis koma á framfæri hugsunum mínum um þetta frumvarp. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur við þessa rannsóknarumræðu frumvarpsins svarað skilmerkilega þeim spurningum sem til hennar hefur verið varpað og a.m.k. fyrir mína parta skil ég málið betur en áður. Ég ætla ekki að fara í merkingarfræðilega togstreitu við hv. þingmann um það hver munurinn er á orðinu ilmur og lykt, en almennt vil ég segja að það er ágætislykt af þessu frumvarpi.

Ég tel líka eins og hefur komið fram að hv. þingmaður hafi sýnt ákveðið þroskamerki og það ber merki um vaxandi fordómaleysi hjá henni gagnvart Evrópusambandinu að vera svo fús til að sækja í smiðju þess til góðra verka. (Gripið fram í.) Ég skil alveg hugsunina hjá hv. þingmanni sem liggur að baki frumvarpinu og ég er henni meira að segja sammála. Ég tel að það sé æskilegt að styrkja Alþingi t.d. með því að það hafi aðgang að mannvitsbrekkum og þekkingarbrunnum á sviði lögfræði og stjórnskipunarfræði og vísustu menn og konur geti kveðið upp úr með það hvort þingmál sem koma til kasta Alþingis standist stjórnarskrá. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að þess eru dæmi að svo hafi ekki verið. Og af því að það situr knattspyrnuþjálfari fyrir aftan hv. þingmann vil ég ekki taka boltann á lofti og grýta aftur í hana, en hv. þingmaður leiddi hér fram nýliðna sögu þar sem sannarlega kom fram að lög sem voru sett stóðust ekki stjórnarskrá. Ég tel að við eigum að ganga vel um stjórnarskrána og við eigum að láta hana njóta vafans. Ég gæti sem sagt kastað boltanum aftur í hana og rifjað upp að hér var formaður stjórnmálaflokks einu sinni á dögum, sem átti fyrir höndum að verða forsætisráðherra síðar. Hann sagði, þegar mjög umdeild lög komu hingað sem jafnvel hinir vísustu menn við Háskóla Íslands leiddu rök að að stæðust ekki stjórnarskrá: Við látum reyna á það. Það er ekki rétt hugarfar og um það er ég alveg sammála hv. þingmanni.

Það eina sem ég vil mótmæla lítillega — mér er sjálfum ekki hógværð í blóð borin umfram aðra menn — er að hv. þingmaður sagði að frá kjöri hennar 2009 hefði hún verið eina manneskjan sem hér hefði borið á öxlum sér ok lagatæknilegrar baráttu gegn skrifræðinu. Þeir hafa hugsanlega verið fleiri.

Ég er þeirrar skoðunar, sérstaklega eftir að búið er að stækka ráðuneytin og steypa þeim saman og þau eru öll orðin mjög öflugar heildir, að þá eigi þau veskú að hafa innan sinna vébanda nægilegt lögfræðilegt atgervi til þess að ekki þurfi yfirferð á málum sem frá þeim koma í sérstakri skrifstofu Stjórnarráðsins. Ég er þeirrar skoðunar. Og þótt ég gæti slegið mér upp og slegið nokkrar keilur af því að þingsalur er svo vel mannaður núna og af því að í þessu máli er á ferli mesta niðurskurðarbrýni a.m.k. þessa þings og flytur þetta mál, gæti ég rifjað upp þá staðreynd að líkast til mundi framkvæmd þessa kosta sennilega 180–200 millj. kr., ef ekkert yrði hagrætt á móti. Það eru miklir peningar.

Það er hægt að segja: Lýðræðið kostar peninga og Alþingi og góð vinna þess kostar peninga. Þau rök má alveg færa fyrir málinu. En ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að ef svo færi að Alþingi mundi samþykkja þetta mál ætti á móti, með þeim rökum sem ég flutti hér áðan, að taka skrifstofuna sem er innan Stjórnarráðsins og flytja hana undir Alþingi. Ég hafði reyndar enga hugmynd um að á þeirri skrifstofu væru fimm manns. Þegar ég var á dögum í því ágæta ráði minnti mig að það hefði bara byrjað með einum karli sem að vísu hafði doktorspróf og stóð sig vel að mörgu leyti.

Ég velti fyrir mér hvort lagaskrifstofa af þessu tagi gæti þjónað þessum tveimur herrum, bæði löggjafanum og Stjórnarráðinu. Vísast má finna leið til þess. Það sem ég mundi freistast til að kalla að óathuguðu máli hagsmunaárekstur er vísast hægt að leysa með ýmsum hætti, en þungamiðjan í þessu er, alla vega í fljótu bragði, að í þessu felst hagsmunaárekstur.

Ég tel að þegar frumvörp koma frá framkvæmdarvaldinu eigi að vera búið að hefla þau og slípa þannig að það sé eiginlega hafið yfir vafa að þau standist alþjóðlegar skuldbindingar og stjórnarskrá. Lagaskrifstofa af þessu tagi mundi væntanlega slá það í gadda endanlega og mér finnst það allt í lagi að það sé þá þingforseti sem feli henni það.

Ég kannast líka við það á löngum þingferli að það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að hér hafa komið upp mál þar sem jafnvel eru, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, einstakar prentvillur. Þær hafa sumar orðið til í miklum gassagangi og flýti hér í þinginu og t.d. varð gerbreytt framkvæmd á kvótakerfinu upp úr 1990 út af einni prentvillu þar sem komman var á vitlausum stað. Það þurfti síðan sérstakt frumvarp og langar umræður til að breyta því. Þetta frumvarp varðaði smábáta, eins og hv. þingmaður hefur ábyggilega kynnt sér.

Það er enginn vafi á því að það þarf einhvers konar filter, einhvers konar síu til að taka öll þingmál endanlega í gegn og spurningin er þá: Hvar á sú sía að vera? Ég hallast að því undir þessari umræðu að rétt sé hjá hv. þingmanni að betur fari á því að hún sé undir Alþingi heldur en að það sé sérstök lagaskrifstofa undir Stjórnarráðinu. Og þá vísa ég aftur til þess að á síðustu árum hafa einingar framkvæmdarvaldsins, þ.e. ráðuneytin, orðið styrkari. Það er búið að gera þau að öflugri stofnunum og þau verða einfaldlega að hafa innan sinna vébanda nægilega þekkingu á lögum til að allt það sem frá þeim kemur standist miklu meira en lágmarkspróf. Sían að lokum væri slík lagaskrifstofa. Ég veit að það skortir fjármagn í ríkisreksturinn en ég mundi ekki samþykkja svona mál nema menn færu þá leið að breyta starfseminni í Stjórnarráðinu eða flytja hana til.

Að því er varðar áhrif á Alþingi tel ég að það skipti ákaflega miklu máli að Alþingi hafi öflugar stofnanir sem hafi eftirlit með framkvæmd lýðræðis, laga og því hvernig réttarríki hagar sér á Íslandi. Embætti umboðsmanns Alþingis var sett á laggirnar fyrir um 20–25 árum, alla vega í þann mund sem ég var að taka fyrstu danssporin á þessu gólfi. Þá var stofnunin ný og veikburða eins og allar nýjar stofnanir. Við ágætur hv. þm. Willum Þór Þórsson áttum góða umræðu um það embætti um daginn. Á sínum tíma tókust á annars vegar löggjafinn sjálfur og framkvæmdarvaldið um að sveigja þá stofnun, umboðsmann Alþingis, inn í farveg sem þessir tveir aðilar töldu henta sér. Alþingi bjó eigi að síður svo um hnúta varðandi umboðsmann Alþingis að það er sjálfstæð stofnun. Þó að dólgar komi og setjist í stól framkvæmdarvaldsins og skaki skellum að umboðsmanni geta þeir ekkert gert, það er Alþingi sem kýs hann og Alþingi getur ekki einu sinni sett hann af. Hann situr sitt skeið á enda nema forlögin taki í taumana. Þess vegna er ákaflega mikilvægt fyrir embætti eins og umboðsmann Alþingis að það sé sjálfstætt og embættið hefur fundið sér mjög góðan farveg. Um það voru menn sammála í umræðum fyrir nokkrum dögum.

Svona lagaskrifstofa þyrfti líka að vera algerlega sjálfstæð og hún þyrfti að vinna óháð framkvæmdarvaldinu en líka að vinna óháð Alþingi að því marki að það pólitíska skak sem alltaf á sér stað í þessum sölum leiði ekki til þess að menn hafi áhrif með einhverjum hætti á starf hennar og vinnu. Þá rifja ég það upp að á fyrstu árum og missirum umboðsmanns Alþingis voru auðvitað pólitískar hreyfingar hér og kannski frekar einstakir stjórnmálamenn sem vildu hafa áhrif á starfssemi umboðsmanns, einkum og sér í lagi hvaða viðfangsefni hann veldi sér til að skoða og rannsaka.

Þetta er eitt af því sem er mikilvægt og að því leytinu til má segja að umbúnaðurinn sem er um hugsanlega lagaskrifstofu í þessu frumvarpi svari því. Mér virðist, ég tek aftur fram að óathuguðu máli nema bara úr þessari umræðu, að þetta eigi að vera sjálfstæð eining og það er mjög mikilvægt. Ég held að það megi færa sterk rök að því að stofnun af þessu tagi mundi styrkja Alþingi og hún mundi styrkja réttarríkið.

Ég hef oft sem þingmaður í stjórn og stjórnarandstöðu, ég tala nú ekki um sem ráðherra, orðið vitni að því þegar menn eru í tímahraki að þröngva fram frumvörpum, fyrst í gegnum ríkisstjórn, síðan í gegnum þingflokka stjórnarliðsins og loks í gegnum þingið á allt of skömmum tíma. Það er þá sem slysin gerast. Ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni að á fjögurra ára ferli mínum sem utanríkisráðherra voru öll mín mál alltaf komin fram fyrir lögmætan tíma. (VigH: Ég las það í bókinni.) Þetta er engin montbók þannig að hv. þingmaður getur ekkert lesið um það þar, nema auðvitað um þetta eina mál sem var lagt fram á sumarþingi og hefur vakið hugarangur hjá hv. þingmanni og sennilega valdið henni miklum vökum líka, þ.e. umsókn um aðild Evrópusambandinu. En það skiptir nú ekki máli.

Það er líka alveg rétt sem hv. þingmaður rifjar hér upp, af því að ég sat þá hér í þessum sal og tók þátt í umræðum um aðild Íslands að EES, að þar var allt á gráu svæði. Þá voru fengnir til menn, lagaprófessorar — voru þeir það ekki allir fjórir með tölu? a.m.k. tveir — sem komust að þeirri niðurstöðu með rökum sem voru ekkert óskaplega traust að aðild okkar að EES væri á gráu svæði en ekki utan þess. Þá vaknar þessi spurning: Er heimilt yfir höfuð að taka ákvarðanir um eitthvað sem er á gráu svæði gagnvart stjórnarskránni? Mér, ungum þingmanni, blautum á bak við bæði eyru, fannst það í lagi. Mér mundi ekki finnast það í dag. Ég mundi vilja hafa það algerlega slegið í gadda. Það er svo einfalt mál.

Varðandi EES-samninginn er ég þeirrar skoðunar eins og hefur komið fram í ræðum mínum sem utanríkisráðherra og ég tjáði Alþingi á sínum tíma þá skoðun og ríkisstjórninni að gagnvart stjórnarskránni verði þessi mál að vera hafin yfir vafa. Sumir þeir sem eru krítískir á Evrópusambandið eins og þeir prófessorar sem oft er leitað til, meira að segja Framsóknarflokkurinn hefur stundum kvatt sér þá sérstaklega til ráðuneytis, hafa komist að þeirri niðurstöðu í nokkrum lagaálitum að þegar við á Alþingi höfum verið að framselja vald í einstökum málum, t.d. sektarvald í einum tveimur málum og ýmiss konar íhlutunarvald, gangi það kannski ef maður skoðar málin þröngt innan sinna eigin vébanda en þegar maður leggur öll málin saman segja þeir einfaldlega: Við erum komin út fyrir þetta gráa svæði.

Ég er þeirrar skoðunar, hvort sem við göngum í Evrópusambandið eða ekki, að við eigum að bera þá virðingu fyrir stjórnarskránni að gera reka að því að breyta henni þannig að þetta sé hafið yfir vafa. Mér finnst það ansi dapurleg örlög fyrir okkur, a.m.k. fyrir mig sem þingmann sem geri mér grein fyrir þessu, að vera aftur og aftur að taka þátt í því að samþykkja mál sem mér finnst leika vafi á að standist stjórnarskrá. Ég er algerlega þeirrar skoðunar að við séum komin það langt yfir þetta gráa svæði og þótt engin breyting verði á afstöðu okkar til Evrópusambandsins sé nauðsynlegt fyrir okkur sem EES-ríki að breyta stjórnarskránni til að heimila framsal á því valdi sem við erum að framselja ella taka afleiðingunum. Afleiðingarnar eru þær að þá verðum við að segja okkur úr lögum við Evrópusambandið sem við höfum gengist í með EES-samningnum.

Þetta finnast mér vera tveir valkostir og þetta er eitt af því sem þingið þarf að skoða á kjörtímabilinu. Þetta er eitt af því sem sú stjórnarskrárnefnd sem núverandi hæstv. forsætisráðherra hefur sett á laggir hlýtur að skoða. Að minnsta kosti stingur mig stundum og sker í merg og bein að taka þátt í því að samþykkja hér mál, vegna þess að við verðum að innleiða þau sem aðilar að EES, og vera í hjarta mínu viss um að sum þeirra, a.m.k. samferða hinum sem fyrir eru liggjandi sem vafamál, standast ekki stjórnarskrá. Kannski er það vegna þess, eins að hv. þingmaður og flutningsmaður málsins hefur bent á í framsögu sinni, að menn hafa umgengist stjórnarskrána fullfrjálslega á undanförnum árum og ég mundi segja áratugum. Þetta er mín skoðun.

Ég vona að menn skoði þetta mál með málefnalegum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að eins og málið liggur fyrir er ramminn á því þannig að ég tel að það væri prýðilegt fyrir Alþingi, og mundi styrkja það og lýðræðið, að samþykkja það. En ég segi það líka, af því að ég lært það á löngum ferli að menn þurfa hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu að gæta aðhalds, að málið kostar mikla peninga. Menn verða þá með einhverjum hætti að koma í veg fyrir tvíverknað. Ég tel þá að ef svona yrði sett upp og við hefðum áfram núverandi lagaskrifstofu í Stjórnarráðinu yrði það tvíverknaður. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður að ráðuneyti, með virðingu fyrir sjálfu sér og jafn stór og okkar, verða að hafa nægilega öflugan mannskap innan sinna raða til að geta komið fram með sómasamleg mál án þess að nokkur hætta sé á að þau brjóti samninga eða stjórnarskrá.