143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir endursögn hans á skýrslu sérfræðingahópsins. Ég náði því þó ekki og náði ekki að greina í svari hans hvort hann teldi raunhæft að afnema verðtrygginguna á kjörtímabilinu og mundi gjarnan vilja að hann kæmi með sína sýn á það í seinna svari sínu samhliða því að fjalla um 40 ára húsnæðislánin, en líklega dugir mínútan ekki til. Fyrri spurningin er þó einföld þannig að ég óska eftir svari við henni.

Hvað varðar 40 ára lánin er það vissulega rétt að þar greiðir fólk mjög hátt verð fyrir húsnæðið á endanum en þau hafa hins vegar líka að einhverju leyti verið lykill tekjulægra fólks til þess að eignast húsnæði. Það skiptir auðvitað máli að í þeim mótvægisaðgerðum sem fylgja séu möguleikar þess fólks á öruggu húsnæði tryggðir. Það væri áhugavert að heyra hvaða sýn hæstv. ráðherra hefur á það, hvort hann telji að það þurfi að stórefla leigumarkað og lækka leiguverð til að það sé raunverulegur valkostur, eða hvort hann telji möguleika á því að tryggja (Forseti hringir.) óverðtryggð lán með föstum vöxtum þannig að greiðslubyrði sé á færi hinna tekjulægri.