143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil freista þess í fyrri hluta þessarar fyrirspurnar að fara yfir ákveðin grundvallaratriði, alla vega grundvallaratriði í mínum huga. Við vitum öll að erlendir fjárfestar eiga á Íslandi mjög háar upphæðir í íslenskum krónum. Þetta eru meðal annars kröfuhafar í gömlu bankana. Ef við hefðum ekki gjaldeyrishöft í landinu mundu þessar krónueignir allar leita út úr hagkerfinu og í aðra gjaldmiðla, íslenska krónan mundi falla og annað efnahagshrun yrði á Íslandi. Að mörgu leyti frestuðum við efnahagshruninu eða ákveðnum veigamiklum afleiðingum þess með því að setja gjaldeyrishöftin á.

Í kosningabaráttunni og í umræðunni um gjaldeyrishöftin hefur verið litið svo á að það séu sameiginlegir hagsmunir Íslendinga og erlendu fjárfestanna að losna við þau. Gjaldeyrishöft eru ekki góð fyrir okkur, þau auka flækjustigið í hagkerfinu, þau eru hindrun fyrir frekari erlendar fjárfestingar á Íslandi, við viljum væntanlega losna við þau.

Það hefur verið litið svo á að erlendir fjárfestar vilji líka losna við þessi gjaldeyrishöft vegna þess að þeir vilja væntanlega fá eignir sínar í þeim gjaldmiðlum sem þeir vilja skipta þeim í. Því hefur verið litið svo á að það sé grundvöllur til viðræðna milli íslenskra stjórnvalda sem vilja losna við gjaldeyrishöft og erlendra fjárfesta sem vilja losna við gjaldeyrishöft.

Nú bregður svo við að hæstv. forsætisráðherra og raunar hæstv. fjármálaráherra líka hafa sagt að engar slíkar viðræður standi til, þetta sé ekki málefni stjórnvalda. Þá vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Vill hann þá ekki afnema gjaldeyrishöft? Ef hann vill afnema gjaldeyrishöft, og þá fljótt og vel, og losna þá við þennan snjóhengjuvanda, hvernig sér hæstv. forsætisráðherra þá fyrir sér að gera það án viðræðna við erlenda krónueigendur?