143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Röksemdafærslan gekk ekki alveg upp þarna í lokin. Vissulega vilja stjórnvöld og líklega flestir losna við gjaldeyrishöftin, vilja að hér verði til þær aðstæður sem leyfa afléttingu hafta. Stjórnvöld eru hins vegar ekki aðilar að viðræðum um nauðasamninga vegna föllnu bankanna. Þar er um að ræða kröfur einkaaðila á einkafyrirtæki sem komust í þrot og það er þeirra að leysa úr því. Hins vegar eru áhrifin af miklu magni krónueigna meðal annars sem gætu leitað úr landi þau að þörf hefur verið talin á því að viðhalda gjaldeyrishöftum hér. Þess vegna munu stjórnvöld að sjálfsögðu líta til þess hvort sú niðurstaða sem kann að nást í viðræðum vegna gömlu bankanna muni leyfa afléttingu haftanna. Í því felst aðkoma stjórnvalda og hefur raunar falist frá upphafi. Ég held að það hafi verið í mars 2012 sem fulltrúar kröfuhafa kynntu einhvers konar drög að nauðasamningi sem var held ég langt komið að færi í gegn. Það munaði ekkert mjög miklu að þáverandi stjórnvöld hleyptu því í gegn. Það hefðu verið gríðarleg mistök eins og menn sáu síðan eftir á.

Sú niðurstaða sem þar var til umræðu hefði ekki leyft afnám haftanna. Ef höftunum hefði verið aflétt við þær aðstæður hefði það skaðað efnahag Íslands og þá sem eftir sitja hér töluvert, raunar mjög mikið. (Forseti hringir.) Þetta er einfalda svarið, virðulegur forseti. Ég held reyndar að það sé ekkert nýtt í þessu máli, en (Forseti hringir.) hv. þingmaður getur svo sem spurt eina ferðina enn.