143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ýmislegt í samningum hinna ýmsu aðila sem ríkið hefur ekki aðkomu að, sem menn gætu viljað hafa skoðun á. Þingmenn gætu viljað hafa skoðun á einhverjum samningum sem verið er að gera úti í bæ en hafa ekki aðkomu að þeim, eru ekki aðilar að þeim viðræðum og það á við í þessu tilviki.

Íslensk stjórnvöld eru ekki aðili að þessum samningaviðræðum ef þær þá eru einhverjar eða fara af stað og þar af leiðandi ekki í aðstöðu til að blanda sér í málið og allra síst á þann hátt sem þeir sem helst hafa verið að tala fyrir því að stjórnvöld blandi sér í þetta hafa lagt til að stjórnvöld setji verulegar ábyrgðir eða skuldir á herðar skattgreiðenda eða ríkisins til að greiða fyrir niðurstöðum einkaaðila. Til þess kemur ekki. Við verðum bara að vona að þetta fari að skila árangri hjá þessum aðilum því að ekki er hægt að hafa þetta ástand óbreytt endalaust.