143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

orka frá Blönduvirkjun.

[15:24]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er rétt sem fram kom í máli þingmannsins að Alþingi samþykkti nýverið þingsályktunartillögu um samstarf aðila á þessu svæði. Ég get upplýst þingmanninn um það að ég hef þegar látið skoða það í ráðuneyti mínu hvernig slíku samstarfi gæti verið komið á. Í undirbúningi er að hafa samband við heimamenn um að koma á fót einhvers konar starfshópi eða samstarfsvettvangi til að gera það sem þingsályktunin kvað á um.

Það eru fyrirmyndir að þessu, til að mynda í Þingeyjarsýslum þar sem álíka samstarfsvettvangur opinberra aðila ríkisins og heimamanna leiddi af sér afar góða vinnu.

Varðandi Blöndulínu 3 er kannski ákveðinn misskilningur fólginn í spurningu þingmannsins, að fyrirætlanir um að byggja upp Blöndulínu 3 tengist einungis því hvar orkan verði notuð. Blöndulína 3 er partur af byggðalínunni og er notuð til að styrkja flutning á rafmagni landshorna á milli og það er ekki síst með hagsmuni Norðurlands í huga að mikil þörf er á því að koma á styrkingu í flutningskerfinu.

Ég er hins vegar mjög hugsi yfir því og tek undir með þingmanninum að þessi framkvæmd hefur verið umdeild. Ég vil í því samhengi benda á þá skýrslu sem ég lagði fram til umræðu í þinginu fyrir nokkru sem var afrakstur (Forseti hringir.) vinnu um raflínur í jörð, og hvort við getum ekki með einhverjum hætti reynt að leysa úr þessu deilumáli með því að skoða fjölbreyttari strengi (Forseti hringir.) þegar við höfum lokið við gerð þeirrar stefnumótunar.