143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

verðtrygging neytendalána.

[15:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það var ekki flókið sem spurt var um. Spurt var: Er það stefna fjármálaráðherra að banna verðtryggingu neytendalána? Er unnið að því í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að skapa aðstæður til að banna verðtryggingu neytendalána? Þó að svarið væri ekki beint skildi ég það þannig að hæstv. fjármálaráðherra segði: Nei, það er stefna Sjálfstæðisflokksins að það séu valkostir á fjármálamarkaði og að ekki eigi að banna verðtryggingu neytendalána.

Ef það er rangur skilningur bið ég hæstv. ráðherra að leiðrétta það, en sé hann réttur er augljóst að formenn stjórnarflokkanna fylgja hvor sinni stefnunni í þessu veigamikla máli hér í efnahagsstjórninni.

Hæstv. ráðherra sagði að styðja ætti það fólk sem hefði lægstu tekjurnar, eins og áður. En ef það er nú bannað að taka 40 ára verðtryggð lán og fólk neyðist til að fara á leigumarkað, er hæstv. fjármálaráðherra þá að segja að hann sé tilbúinn (Forseti hringir.) í þá kerfisbreytingu að fólk fái sömu húsaleigubætur og það fengi ella sem vaxtabætur? Verður jafnræði milli fólks í því efni?