143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

verðtrygging neytendalána.

[15:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að með því að ekki er til staðar mikið framboð af afar ódýrum lánum eins og 40 ára lánin geta verið við vissar aðstæður, þ.e. ódýrum í þeim skilningi að greiðslubyrðin er hlutfallslega lág miðað við lánsfjárhæðina í upphafi, getur það haft viss áhrif á fasteignamarkaðinn til lækkunar. Mikið framboð af slíkum ódýrum lánum, mikið framboð af lánum þar sem einungis eru greiddir vextir mundu hækka verð á fasteignamarkaðnum og gera nýju fólki erfiðara að komast inn á markaðinn. En er þá eina svarið gagnvart því fólki sem hefur lágar tekjur að bjóða slík lán eftir sem áður? Nei, ég held að það sé hægt að fara aðrar leiðir. Við eigum almennt að hvetja til meiri sparnaðar á Íslandi og aðgerðir stjórnvalda geta ýtt undir sparnað en ekki ýtt undir skuldsetningu.

Þannig höfum við kynnt nú þegar hugmyndir um að búa til sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga þar sem í stað þess að dæla út vaxtabótum (Forseti hringir.) mundum við gefa skattafslátt til þeirra sem vildu leggja fyrir til að eiga fyrir útborgun í húsnæði. (Gripið fram í.) Þetta væri kerfisbreyting sem ég tel að gæti haft efnahagslega mikla þýðingu og skilað sama árangri og við flest erum sammála um að vilja ná. (Gripið fram í: Látið … spara.)