143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í sumar var gert samkomulag milli þingflokka um lagabreytingu og formaður allsherjar- og menntamálanefndar lýsti því yfir að stjórn og stjórnarandstaða skiptu með sér tveimur nýjum fulltrúum í Ríkisútvarpið. Þingflokkar á Alþingi eiga að hafa sjálfsvirðingu til að standa við yfirlýsingar sínar úr ræðustól Alþingis og samninga sem þeir gera. Hér var enginn misskilningur á ferð, en forsætisráðherra afturkallaði samningsumboð þingflokksformanns síns eftir að samningurinn var gerður. Það er ósköp einfalt. Það er að standa ekki við orð sín og svíkja gerða samninga. En einn stjórnarliði í leynilegri kosningu bjargaði heiðri stjórnarinnar og greiddi atkvæði með stjórnarandstöðunni og tryggði þannig að Píratar fengu eins og aðrir þingflokkar einn mann við borðið uppi í Efstaleiti. Er það nú forgangsmál í stjórnmálum á Íslandi að hrekja Pétur Gunnarsson út úr stjórn Ríkisútvarpsins?(Forseti hringir.)

Ég spyr þingmenn og hvet þá ólíkt jafnaðarmönnum ekki til að krossa við A í þessari atkvæðagreiðslu; X-B. [Hlátur í þingsal.]