143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vil skora á þingmenn að virða samkomulag sem hér var gert. Það hefði aldrei verið samþykkt að fjölga í stjórn RÚV ef þessir tveir aukamenn hefðu einungis átt að koma frá meiri hlutanum.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að fulltrúi Pírata í stjórn RÚV er ekki Pírati heldur fulltrúi þess hóps sem var skorinn út úr breytingum á lögunum, fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna. Ég vil vekja athygli á því að ef við getum ekki virt samkomulag sem gert er í þessu máli hljóta allir aðrir samningar sem við gerum við meiri hlutann að teljast ómerkir og minni hlutinn á ekki að þurfa að standa við þá heldur. Við verðum að geta treyst hvert öðru hér í þessum þingsal og þegar því er lýst yfir hér í þessum stól að samkomulag hafi verið gert og það er síðan ekki virt þá erum við ekki að fara að tala um neina sátt.