143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er eiginlega með ólíkindum að heyra hæstv. menntamálaráðherra koma hingað upp og lýsa því yfir að lýðræðisleg fjölbreytni verði tryggð í stjórn Ríkisútvarpsins með því að tryggja að þar séu nógu margir ólíkir framsóknarmenn. Þetta er óboðlegur málflutningur og samkomulag hefði aldrei náðst á Alþingi um fjölgun úr sjö í níu stjórnarmenn ef legið hefði fyrir að ætlun ríkisstjórnarflokkanna væri að taka þá báða.

Það er líka sérkennilegt af hæstv. menntamálaráðherra að verja þennan fruntaskap nokkrum dögum eftir að tekist hefur söguleg samstaða í stjórn Ríkisútvarpsins um skipan nýs útvarpsstjóra, og að fórnarlamb þessa nýja fruntaskapar skuli vera sá stjórnarmaður, Pétur Gunnarsson, sem lagði sig sérstaklega fram um að brúa bil milli ólíkra sjónarmiða og leggja grunn að víðtækri samstöðu um nýjan útvarpsstjóra. Þetta er dapurleg framganga og mér finnst einstaklega ömurlegt að sjá hæstv. menntamálaráðherra ganga hér fram og verja fruntaskapinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)