143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það vakti mikla athygli á sumarþinginu síðastliðið sumar að eina mál hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra var að breyta þá nýjum lögum um Ríkisútvarp, fjölmiðil í almannaþágu, þar sem stjórnarforminu var breytt yfir í það að aftur yrði kosið með flokkspólitískum hætti fremur en að finna nýja leið til að skapa armlengd á milli stjórnmálanna og Ríkisútvarpsins. Þegar sú umræða var orðin hávær, m.a. í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, kom fram tillaga, sem átti að vera eins lags sáttatillaga, um að menn fjölguðu í stjórninni og tryggðu það að allir þingflokkar á þingi ættu þar fulltrúa. Því var svo reynt að breyta til baka með ákvörðun hæstv. forsætisráðherra, að mér skilst, þar sem krafist var að hér yrði farið í hlutfallskosningu. Sem betur fer kaus einn af stjórnarþingmönnunum með minni hlutanum og tryggði þar með að fulltrúar stjórnarandstöðu yrðu fjórir.

Ég treysti á að það gerist aftur í dag þannig að við sendum Ríkisútvarpið af stað með öflugan hóp til að stýra á nýjum tímum hjá útvarpinu.