143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að sjálfsögðu að taka undir það sem hér hefur verið sagt af hálfu minni hlutans. Ég tek sérstaklega undir orð flokksfélaga míns sem hér talaði á undan. Þegar rætt er um flokksmenn eins og stjórnarþingmaður gerði áðan, en hann talaði um flokksmenn í stjórn Ríkisútvarpsins, hefur verið bent á það að sá sem er inni fyrir Pírata núna er ekki flokksmaður heldur kemur hann frá BÍL.

Auðvitað á markmiðið að vera að Ríkisútvarpið sé fjórða valdið og ég vona að sú breyting sem verður með því að ráða nýjan útvarpsstjóra geri að verkum að Ríkisútvarpið verði í alvörunni fjórða valdið. Auðvitað á nýr útvarpsstjóri að hafa það nesti með sér, eins og hér hefur verið bent á, að sá meiri hluti sem nú er starfandi í Ríkisútvarpinu og réð hann eða lagði það til (Forseti hringir.) standi að baki honum við að móta framtíðarstefnu þess. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)