143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:26]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að fara að greiða atkvæði um stjórn Ríkisútvarpsins. Við erum að fara að greiða atkvæði samkvæmt lögum og eigum að gera það á hverju einasta ári. Ég spyr: Er þetta það sem við eigum von á á hverju einasta ári? (Gripið fram í: Já.) Þá fara tveir tímar (Gripið fram í: Á meðan …) í að ræða um eitthvert samkomulag (Gripið fram í: Eitthvert?) sem sumir telja að hafi orðið en greinilega var ekkert samkomulag. Þar ofan í erum við að greiða atkvæði og ég mun greiða atkvæði samkvæmt minni samvisku. Það er enginn sem semur um það fyrir mig hvort ég greiði atkvæði með A, B eða C eða hvað það heitir, hvorki formaður þingflokks Framsóknar né forsætisráðherra. Ég á það við mig. Það er ekkert samkomulag um það. Ég ætla bara að láta ykkur vita það.