143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Í ljósi þess að mjög margir þingmenn munu greiða atkvæði með þeirri tillögu í dag að fullgilda fríverslunarsamning við kommúnistastjórnina í Kína langar mig að skora á ríkisstjórnina að mótmæla, eins og ríkisstjórnir Kanada og Bandaríkjanna hafa gert, dómi yfir lögfræðingnum Xu Zhiyong sem fékk fjögurra ára fangelsi í síðustu viku. Kanadamenn gáfu út yfirlýsingu og ég skora á ríkisstjórnina að gera hið sama, með leyfi forseta:

„Kanada harmar dóminn yfir Xu Zhiyong. Við álítum að honum sé refsað fyrir að nota rétt sinn til að tjá opinberlega á friðsamlegan hátt spillingu kínverskra yfirvalda.“

Ég skora líka á þingmenn að átta sig á því að við munum ekki komast út úr þessu faðmlagi nema að ganga í ESB þegar verktakafyrirtækin byrja að fara á hausinn. (Forseti hringir.)