143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Eins og einhver sagði er þetta tímamótasamningur vegna þess að hér ganga tvær þjóðir til samninga sem samanlagt mynda nærri fjórðung mannkyns. Engu logið um það. Mér finnst afskaplega mikilvægt að við áttum okkur á því að hér er bara verið að semja um viðskipti. Þetta er samningur um tolla. Hér er ekki verið að semja um mannréttindi. Við breytumst ekki við þennan samning í viðhlæjendur Kínverja í mannréttindamálum eða vinnuréttarmálum.

Mér finnst afskaplega mikilvægt að við notum tækifærið sem menn tala um að felist í þessum samningi til að gefa í í gagnrýni okkar á mannréttindabrot í Kína. Þess vegna vil ég nota tækifærið í þessari atkvæðagreiðslu til að vekja athygli á að aftur hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga um að iðkendur Falun Gong, sem voru stöðvaðir á för sinni til Íslands 2002, verði formlega beðnir afsökunar á þeim mannréttindabrotum sem á þeim dundu. (Forseti hringir.) Það ætti að vera hægur leikur og ærið tilefni til núna þegar við gerum þennan fríverslunarsamning við Kína.