143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kýs að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að greiða atkvæði með samningi við ríki eins og Kína þar sem við vitum, eins og hér hefur komið fram, að mannréttindi eru brotin og ekki eru virtar það sem við köllum vinnumarkaðsreglur þrátt fyrir að hæstv. utanríkismálanefnd telji sig vera búna að girða fyrir það í þessum samningi. Þrátt fyrir að hér hafi komið fram að með því að gera þennan samning aukist möguleikar okkar á að koma afstöðu okkar til kínverskra stjórnvalda má líka spyrja: Ef okkur tekst það ekki er þá samningurinn ekki gildur eða hvað? Eða mundum við láta það yfir okkur ganga ef okkur tekst ekki með einhverjum hætti að sjá til þess að mannréttindabrot (Forseti hringir.) viðhaldist ekki hjá kínverskum yfirvöldum?