143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að þessi samningur sé kominn hér til atkvæðagreiðslu og fái jafn mikinn stuðning og atkvæðataflan gefur til kynna. Þetta er gríðarlega mikilvægur viðskiptasamningur sem við Íslendingar höfum náð hér. Fjölmargar þjóðir horfa til þess að ná sambærilegum samningi við Kína en þurfa að bíða áfram í röðinni.

Hér er verið að opna markaði á svæðum í heiminum sem munu vaxa mest á næstu áratugum. Það er því rík ástæða til þess að hvetja alla íslenska framleiðendur, hvort sem er í sjávarútvegi eða öðrum greinum, til að fullnýta þau tækifæri sem samningurinn ber með sér. Við höfum eins og flestar aðrar þjóðir haft nokkurn halla af utanríkisviðskiptum við Kína en sambærilegir samningar eins og sá sem hér eru greidd atkvæði um, hafa fært mál til betri vegar. Til dæmis hafa Nýsjálendingar (Forseti hringir.) hagnast stórkostlega á fríverslunarsamningi við Kína og gripið tækifæri sem fært hafa viðskiptajöfnuðinn til betri vegar. Þau tækifæri þurfum við að hvetja alla íslenska framleiðendur (Forseti hringir.) til þess að nýta.