143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég legg þessa breytingartillögu fram til að fella burt fangelsisrefsingar fyrir tjáningarbrot. Þá vil ég ítreka að fangelsisrefsingar eru við ýmsum tjáningarbrotum á Íslandi, t.d. eins og því að gantast með trúarbrögð, sem dæmt hefur verið í í Hæstarétti árið 1983, mál nr. 16. Það þykir mér mjög óeðlilegt og því legg ég þessa breytingartillögu fram með það að markmiði að bæta frumvarpið á þann hátt að hægt sé að segja með ótvíræðum hætti að hér séum við bæði að sinna viðbótarbókuninni sem frumvarpið byggir á, en einnig að styrkja tjáningarfrelsið. Þá væri hægt að greiða atkvæði með þessu frumvarpi. Verði breytingartillagan felld, sem ég því miður býst við að verði, munum við píratar sitja hjá. Við munum leggja breytingartillöguna fram í frumvarpi á svokölluðum öðrum vettvangi samkvæmt nefndaráliti hv. meiri hluta.