143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[17:21]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta mál sé að verða að lögum. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að hafa lagt málið fram og allsherjar- og menntamálanefnd kærlega fyrir góða vinnu. Málið er nánast samhljóða frumvarpi sem ég lagði sjálf fram sem sneri að því að bæta við kynvitund, að sérstakt ákvæði þyrfti til að vernda fólk vegna kynvitundar og að sá hópur þyrfti sérstaklega á vernd laganna að halda. Þetta er gott skref, en við þurfum að gera meira.

Ég vonast til þess að eitt af næstu skrefunum sem við tökum verði að samþykkja frumvarp sem lýtur að því að vernda fólk almennt gegn mismunum á vinnumarkaðnum þar sem tekið verður á hinum ýmsu hópum sem geta og hafa orðið fyrir mismunun.

Ég fagna því líka að Alþingi hafi samþykkt þingsályktunartillögu frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um að huga enn frekar að málefnum (Forseti hringir.) hinsegin fólks. Ég hlakka til að vinna þá vinnu.