143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[17:58]
Horfa

Jóhanna Kristín Björnsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir skýrsluna.

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins. Að tilheyra fjölskyldu hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Grunninn að hugtakinu fjölskylda má rekja allt til Biblíunnar. Í Mósebók kemur fram áherslan á að stofna til hjúskapar og að maður og kona eigi að vera frjósöm og fjölga mannkyninu. Aristóteles er talinn vera einna fyrstur þeirra sem skrifaði um hugtakið fjölskyldu. Hann fjallaði um hin stöðluðu hlutverk fjölskyldunnar sem mynda saman grunneiningu samfélagsins. Flestir vilja eignast fjölskyldu en sumir geta það ekki sökum veikinda eða líffræðilegra orsaka og þurfa því að leita annarra leiða.

Undanfarin ár hefur verið þó nokkur umræða um staðgöngumæðrun á Íslandi. Í dag er staðgöngumæðrun bönnuð hér á landi samkvæmt lögum. Hugtakið staðgöngumæðrun, eins og það er skilgreint í lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, felur í sér að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og að staðgöngumóðirin hafi fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu til væntanlegrar ættleiðingar og uppeldis hjá þeim foreldrum sem tækju við barninu.

En hverjir þurfa á staðgöngumæðrun að halda? Það eru konur sem misst hafa legið vegna sjúkdóma eða áverka og konur sem fæðst hafa án legs, konur sem mega ekki ganga með barn sjálfar vegna sjúkdóma, konur sem hafa leg en þrátt fyrir góð gæði fósturvísa ná þeir ekki haldi. Legið sjálft er vandamálið.

Aðstæður staðgöngumæðra geta verið mismunandi. Staðgöngumóðir í velgjörðarskyni er sú sem gengur með barn fyrir aðra og gerir það eingöngu vegna mannúðarsjónarmiða og löngunar annarrar manneskju til að láta þann draum rætast að eignast barn. Staðgöngumóðir fær enga greiðslu en foreldrar barnsins greiða allan útlagðan kostnað vegna meðgöngunnar.

Staðgöngumóðir í hagnaðarskyni er sú kona sem gengur með barn fyrir aðra konu og gerir það eingöngu vegna þóknunar. Sú aðferð er oftar en ekki notuð af efnuðu fólki sem þráir að eignast barn og er oft og tíðum örvæntingarfullt og gerir nánast hvað sem er til að ná markmiði sínu. Þessi aðferð er lögleg í nokkrum löndum og virðist vera framkvæmd vegna fátæktar staðgöngumóðurinnar.

Við þingmenn þurfum að horfa á þetta út frá siðferðilegu sjónarhorni. Flestir eru sammála um neikvæða þáttinn vegna staðgöngumæðrunar í hagnaðarskyni. Hefur staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni verið líkt við vændi, að kona sé tilbúin að nota líkama sinn í annarlegum tilgangi. Oft eiga þær konur við mikla fátækt og þröngar félagslegar aðstæður að etja.

Hæstv. forseti. Ég er á þeirri skoðun að skoða þurfi þetta mál gaumgæfilega. Málið er umdeilt út frá siðferðilegum rökum. Ég er þó jákvæð með framhaldið og niðurstöðu þingsins. Það eru vankantar á þessu máli eins og öðrum. Ég spyr: Er möguleiki að setja reglur um staðgöngumæður, þ.e. að sérhver staðgöngumóðir megi einungis ganga með barn fyrir aðra konu einu sinni? Með því væri jafnvel hægt að draga verulega úr líkum á að staðgöngumóðirin geri slíkt í hagnaðarskyni en ekki í velgjörðarskyni. Þar að auki þyrfti staðgöngumóðirin að vera búin að ganga í gegnum að minnsta kosti eina fæðingu áður, en auk þess þyrfti auðvitað að kanna bakgrunn staðgöngumæðra.

Hæstv. forseti. Málið þarf að þróast í umræðunni hér á landi áður en tekin er ákvörðun um að lögleiða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Margir hafa bent á að við þyrftum að vera í samfloti með hinum Norðurlöndunum í svo stóru siðferðilegu máli. Ég fagna að umræðan fari fram hér á landi því að eftir því sem mál eru betur krufin með umræðu opnast augu fólks fyrir þeim möguleika, en eins og ég sagði í upphafi er fjölskyldan hornsteinn samfélagsins.