143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[18:04]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Við ræðum hér um undirbúning á frumvarpi sem heimilar staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir að lýsa yfir vilja sínum við að breyta og bæta og laga alla hluta verksins að óskum, áhyggjum og vonum þessa þings, sem hefur málið nú til meðferðar.

Margir bera von í brjósti um að þetta verði að veruleika, en ég verð að segja, herra forseti, að ég hef af þessu talsverðar áhyggjur og legg áherslu á að við flýtum okkur hægt. Þessi umræða er margslungin og vekur upp margar siðferðilegar spurningar.

Eins og kom fram í máli ráðherrans er staðgöngumæðrun hluti af hnattrænu umhverfi. Í löndum eins og Indlandi er kominn markaður þar sem vestrænir, vel stæðir foreldrar leita til indverskra kvenna og leigja af þeim líkama þeirra til þess að ala sér barn.

Við stefnumörkun í velferðarmálum höfum við Íslendingar mikið til fylgt Norðurlöndunum og höfum með stolti kennt velferðarmódel okkar við hið norræna. Ekkert Norðurlandanna leyfir staðgöngumæðrun í lögum sínum.

Eins og fram kom í máli ráðherra hér að framan eru álitaefnin mörg og ég ætla að tæpa á nokkrum þeim helstu eins og þau koma fram í máli Ástríðar Stefánsdóttur, læknis og heimspekings, sem er jafnframt dósent í hagnýtri siðfræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Hún skrifar svo í Fréttablaðinu þann 29. janúar árið 2011:

„Staðgöngumæðrun hefur tilhneigingu til að markaðsvæðast — taka að lúta lögmálum framboðs og eftirspurnar. Þá myndast verð fyrir barnið og konan sem gengur með barnið gerir það að einhverju leyti fyrir greiðslu jafnvel þó um velgjörð sé að ræða (greiðsla er þá hugsuð sem uppbót fyrir miska eða vinnutap). Nú þegar eru til stór fyrirtæki erlendis sem annast milligöngu um slíka þjónustu og á undanförnum árum hefur orðið til iðnaður á þessu sviði sem veltir stórum fjárhæðum. Það sem þetta þýðir í raun er að barnið og líkami konunnar verður að söluvöru.

Sé staðgöngumæðrun leyfð á annað borð er mikilvægt að það leiði ekki til kúgunar staðgöngumóðurinnar. Það að taka að sér að ganga með barn sem maður hyggst gefa frá sér til annarra einstaklinga að meðgöngu lokinni getur skapað viðkvæma árekstra. Þeir sem munu taka við barninu hafa tilhneigingu til að vilja stjórna lífi konunnar á meðgöngunni þar sem konan gengur með „þeirra barn“. Mikilvægt er að viðurkenna að þungi konu á meðgöngu er ávallt hluti af líkama hennar og hver kona ræður sjálf líkama sínum. Ef vikið er frá þessu er stutt í þá túlkun að meðgöngumóðirin sé ekki persóna sjálf heldur sé hún fremur hluti af líkama barnsins sem hún gengur með. Staðgöngumóðir verður því að ráða sjálf yfir líkama sínum á meðgöngu. Enginn annar en hún ákveður hvort hún lýkur við meðgönguna eða ekki ef álitamál koma upp. Það eru því engar forsendur fyrir að gera við hana bindandi samning sem kvæði á um að hægt væri að stefna henni ef henni snerist hugur í ferlinu. Slíkur samningur væri brot á mannréttindum hennar. Slíkir samningar eiga heima í viðskiptum en ekki á sviðum sem varða mannhelgi einstaklinga og málefni fjölskyldna.“

Ástríður Stefánsdóttir heldur áfram:

„Það er vandmeðfarið hvernig á að afmarka þann ramma sem ákvarðar hverjir eigi að hafa aðgang að þjónustu staðgöngumæðra. Spurningar um mismunun einstaklinga og hópa vakna mjög auðveldlega. Ef einungis er miðað við gagnkynhneigð pör og tilvik þar sem konan hefur ekki leg má gera ráð fyrir að mörgum þætti það óréttlát niðurstaða. Til eru aðrir sjúkdómar hjá konum sem gera það að verkum að þær geta ekki gengið með barn en eiga engu að síður enga ósk heitari en að fá barn. Einnig er það í algeru ósamræmi við lög okkar að binda þessa þjónustu einvörðungu við gagnkynhneigða einstaklinga og pör. Jafnframt er líklegt að erlend pör hefðu hug á að nýta þá þjónustu sem hér væri boðið upp á.“

Hér kemur Ástríður að mikilvægum punkti.

„Við erum aðilar að samningi um opinn aðgang að heilbrigðisþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu. Það er því ekki ljóst hvernig við getum meinað einstaklingum þaðan aðgang að þjónustunni. Með víðan og opinn aðgengisramma er erfiðara að koma í veg fyrir algera markaðsvæðingu á ferlinu.“

Herra forseti. Mér þótti ræða ráðherra mjög góð og hann tæpti á mörgum þeim málum sem við verðum að fá að skoða saman yfir lengri tíma. Þegar þessi þingsályktunartillaga var afgreidd minnir mig að ég hafi séð einhvers staðar að í henni væri gert ráð fyrir að þessi lög kæmu fram eigi síðar — einhvern tíma í fortíðinni sem sagt — en árið 2011, held ég. Það má ekki afgreiða þessa hluti, svona ofboðslega viðkvæma siðferðilega hluti svona hratt. Við verðum að fá rými til að tala um hlutina og vera viss um það að samfélagið vilji þetta og sé tilbúið í svona drastíska breytingu.

Við verðum að byrja á að svara grunnspurningunum. Eru það mannréttindi allra að eignast börn? Ég get ekki svarað því, mér finnst það stór spurning. Það er réttur allra barna að eiga foreldra en ég er ekki viss um að það sé réttur allra að eignast börn. Við þurfum að byrja á þessu, taka skrefin hægt og rólega vegna þess að lagafrumvarp um staðgöngumæðrun er svo stórt mál að við afgreiðum það ekki með hraði og við þurfum að gera það að vel ígrunduðu máli. Annars getur komið upp sú staða að við, jafnréttislandið Ísland sem fær fyrir það verðlaun úti í heimi, erum komin á ískyggilegt svæði ef við vöndum okkur ekki afskaplega vel.