143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[18:12]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að gefa okkur færi á að ræða um þetta mikla álitaefni.

Nú er það svo að innst í okkur öllum blundar einhver vörnuður gegn því að þessi leið sé valin. Hins vegar geta fjölmargir ekki eignast börn, ýmissa hluta vegna. Í gegnum söguna hafa átt sér stað barnsgjafir, getum við sagt, við þekkjum sjálfsagt öll dæmi um það að systur hafa gefið börn sín á milli vegna þess að önnur gat ekki eignast barn eða að börn hafa verið ættleidd erlendis frá. Það má segja að þetta sé angi af því þó að við séum þarna komin með hlut sem er meiri hætta á að sé misnotaður.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Björnsdóttur felur staðgöngumæðrun í sér, eins og hugtakið er skilgreint í lögum, að tæknifrjóvgun er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu.

Þegar þetta hefur verið rætt hefur líka verið lögð áhersla á það að eggin séu ekki úr staðgöngumóðurinni, að eggið komi annaðhvort frá móðurinni sem á að taka við barninu ef hún getur framleitt egg, en eins og fram hefur komið geta verið ýmsar ástæður fyrir því að hún getur ekki haldið fóstri í legi, eða að eggið komi frá einhverjum öðrum en staðgöngumóðurinni. Í fræðilegri umræðu er lögð áhersla á það að fruman, kynfruman, þ.e. annaðhvort sæði eða eggfruman komi frá öðru hvoru verðandi foreldri, sáðfrumur frá karlinum eða egg frá móðurinni. Það er væntanlega hugsað þannig að tengslin við barnið geti orðið meiri og menn þekkja það auðvitað að tengsl við eigið hold og blóð eru mjög sterk.

Hins vegar erum við þá komin að því að kona sem gengur með barn binst því mjög sterkum böndum við allar eðlilegar aðstæður. Þegar kona tekur að sér að ganga með barn fyrir aðra konu getur hún vel búist við því að eiga mjög erfitt með að láta það barn frá sér í fyllingu tímans. Það er kannski ekki hægt að sjá fyrir hvaða tilfinningar muni bærast í brjósti staðgöngumóðurinnar þegar hún stendur frammi fyrir veruleikanum.

Við höfum þá stöðu að við erum hugsandi verur og það á líka við um væntanleg börn. Við sem hugsandi verur höfum öll þessa innbyggðu þrá að vilja vita hver uppruni okkar er, einnig barn sem er til komið á þennan hátt þegar það vex upp. Börn sem hafa verið ættleidd vilja iðulega komast að því hver uppruni þeirra er í raun og veru. Eins og lögin um tæknifrjóvgun eru núna getur gjafinn, hvort sem það er eggjagjafi eða sæðisgjafi, farið fram á að óheimilt sé að gefa upp hver hann er. Það er því að mjög mörgu að hyggja og ég held að það þurfi á allan hátt að vanda mjög til (Forseti hringir.) lagasetningarinnar ef við förum þá leið að heimila staðgöngumæðrun.