143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[18:32]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það hefur aldrei farið leynt að ég hef verið frekar hlynnt því að leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hérlendis. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá var lagt upp með mjög ströng vinnuskilyrði fyrir vinnu skýrslunnar sem hann fór hér fyrir. Helstu mótmælaraddir tala um réttindi barnsins en sérstaklega var tekið fram að fyrst og fremst ætti að tryggja réttindi og hag barnsins. Hér hafa margir talað um að verið sé að fara illa með þá konu sem tæki að sér að vera staðgöngumóðir og hin hörðustu rök hafa talað um að verið væri að nota hana sem geymslu og þetta jaðri við vændi eða mansal.

Við skulum hafa eitt á hreinu. Það er enginn sem vill leggja upp í lögleiðingu á frjálsri staðgöngumæðrun án þess að hafa rökstuðning, strangan lagaramma eða samráð við sérfræðinga. Við skulum því passa okkur á að tala skýrt um að hér er aðeins verið að kynna skýrslu um undirbúning á lagafrumvarpi sem skuli leyfa staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Þegar talað er um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er átt við mannúðarsjónarmið, að þau ráði því að eingöngu ákveðnum konum verði ráðlagt að verða staðgöngumæður. Konan er að ganga með barn fyrir aðra einungis vegna löngunar til að hjálpa öðrum að láta draum um barn rætast. Hún fær enga greiðslu en verðandi foreldrar greiða kostnað er tengist meðgöngunni. Þessi aðferð er leyfð í mörgum löndum en þá er staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni oftast bönnuð.

Í allri vinnu við þessa skýrslu hefur það verið haft að leiðarljósi að réttindi, hagur og velferð barnsins og staðgöngumóður skuli tryggð. Að geta eignast barn og að eignast barn eru forréttindi. Ekki eru allir það heppnir að geta eignast barn og margt getur spilað þar inn í. Kannski getur konan ekki gengið með barn, kannski er hún ófrjó og kannski eru tilvonandi foreldrar báðir karlmenn o.s.frv. Auðvitað á staðgöngumóðir að vera eitt af lokaúrræðum tilvonandi foreldra. En umræðan snýst ekki um að það sé sjálfsagður réttur allra að eignast barn og það sé því sama hvernig farið sé að því heldur er einungis verið að tala um jafnan rétt til mögulegra úrræða. Ég get ekki ímyndað mér að neinn sem fæðst hefur með hjálp staðgöngumóður vilji frekar hafa sleppt því að fæðast út af því að foreldrar hans fengu hjálp við að búa hann til.

Hæstv. heilbrigðisráðherra kom áðan inn á vandamál sem hrjá frekar börn sem hafa orðið til með hjálp staðgöngumæðra og ég væri alveg til í að heyra það ef hann vissi hver þau vandamál eru. En í dag er ástandið þannig að jafnræði er ekki tryggt milli íslenskra kvenna hvað varðar lausnir á ófrjósemisvanda þeirra, hvort sem það varðar gagnkynhneigðar eða samkynhneigðar konur. Lögin eru til dæmis þannig að kona sem er án legs en með eggjastokka sem framleiða heilbrigð egg má ekki láta búa til fósturvísa til að geyma en hún má hins vegar gefa annarri konu eggin sín í velgjörðarskyni, t.d. konu sem vantar í eggjastokka, og eggþeginn má því fæða og eiga líffræðilegt barn þeirrar konu sem ekki er með leg en hefur heilbrigðar eggfrumur. Konur sem vantar eggjastokka fá alla þá læknisfræðilegu hjálp sem mögulegt er að veita í dag á meðan konur sem ekki eru með leg og geta af öðrum ástæðum ekki gengið með barn fá enga hjálp. Eru það réttlætanleg rök að meina íslenskum konum að taka að sér staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni vegna þess að maður er mótfallinn því að fátækari konur í þróunarlöndunum gerist staðgöngumæður í hagnaðarskyni?

Að flétta umræðuna við önnur norræn lönd er sjálfsagt í því ljósi að erlendar konur mundu kannski vilja sækja þessa þjónustu til Íslands ef hún væri leyfð hérlendis. Því er spurning um hvort tala eigi skýrt um það að aðeins íslenskar konur verði staðgöngumæður fyrir aðrar íslenskar konur og við erum að horfa til þess. Við leysum ekki neinn vanda með því að taka ekki umræðuna um staðgöngumæðrun heldur erum við að hunsa vandann og ýta honum út á kantinn og vonast til að hann hverfi. En í stað þess að vandamálið hverfi þá finnur fólk sér leið fram hjá kerfinu, fram hjá lögunum.

Í dag fara margir sem búa í löndum sem viðurkenna ekki staðgöngumæðrun til útlanda og semja um staðgöngumæðrun þar til að eignast börn. Eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra þá er það skylda stjórnvalda í hverju landi að tryggja börnum sem fædd eru af staðgöngumóður í fjarlægu landi sömu réttindi og öðrum.

Þeir sem búa á Íslandi og berjast fyrir því að leyfa staðgöngumæðrun eru að berjast fyrir því að kona taki upplýsta ákvörðun upp á sitt eindæmi um að verða staðgöngumóðir. Hún fer í rannsóknir og fær viðtöl hjá læknum, sálfræðingum og öðrum er málaflokkurinn varðar og sú kona þarf að fylgja ströngum reglum sem settar eru fram af sérfræðingum. Tilvonandi foreldrar eru svo settir í samband eða koma sér í samband við viðkomandi konu og þau gera með sér samning sem felur í sér að skilgreint er hvernig samband þeirra skuli vera og aðkoma, bæði fyrir meðgöngu, meðan á henni stendur og svo eftir meðgöngu. Allt þetta verði gert eftir reglum sem smíðaðar yrðu kringum ferlið og litið til allra málsaðila.

Margir sem eru á móti staðgöngumæðrun benda á ættleiðingar og segja það vera þá lausn sem fólk eigi að nýta sér ef það langar að eignast börn en getur það ekki með eðlilegum hætti. Ættleiðing er ekki bara þannig að þú skrifir undir eitthvert plagg og fáir barn afhent og engin vandkvæði fylgi. Ættleiðing er bæði langt og strangt ferli. Þú þarft að uppfylla ströng skilyrði sem á einum degi geta breyst og komið þér í þá stöðu að þú getir ekki ættleitt þrátt fyrir að aðstæðurnar séu ekki þannig að þær geri þig á nokkurn hátt að vanhæfu foreldri. Þú verður til að mynda að vera orðinn að minnsta kosti 25 ára, mátt ekki vera eldri en 45 ára, þú þarft að vera andlega og líkamlega hraustur, geta framfleytt fjölskyldunni með góðu móti og mátt ekki vera á sakaskrá. Þetta hljómar allt voðalega eðlilega.

Það eru nokkrir gullpunktar þarna. Ef fólk í sambúð sækir um ættleiðingu þá þarf sambúð að hafa varað í að minnsta kosti þrjú ár og þar af hjúskapur í eitt ár. Fólk í óvígðri sambúð þarf að hafa verið í að minnsta kosti fimm ár í sambúð. Ef þú skuldar húsnæðislán getur þú dottið út af ættleiðingarbiðlistanum og bara sem dæmi þá var fyrsta samkynhneigða parið sem ættleiddi barn á Íslandi að gera það núna síðasta sumar. Það er ekki lengra síðan. Svo er það öðrum sem hugnast ekki að ganga í gegnum fimm til átta ára bið upp á von og óvon með ströngu eftirliti á persónulegum högum til þess jafnvel að detta út af listanum einn daginn vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem gera fólk óhæft til að sækja um. En ef foreldrar sem eignast barn með náttúrulegum hætti lenda í sömu aðstæðum dytti engum í hug að þeir væru óhæfir foreldrar.

Þessi umræða, að allir eigi jafnan rétt og möguleika á að vera foreldri, gefur okkur líka ástæðu til að endurskoða ættleiðingarlögin og athuga hvort hægt sé að einfalda það kerfi. Þeir sem geta eignast barn á náttúrulegan hátt eru alls ekki allir í sömu stöðu. Við erum að tala um 15 ára stúlkur upp í fimmtug hjón, fólk sem á engin börn fyrir, fólk sem á sex börn fyrir, fólk sem hittist í gær, fólk sem hefur skilið þrisvar sinnum, fólk sem á enga peninga og fólk sem á fullt af peningum. Þetta fólk þarf ekki að uppfylla nein skilyrði eða sanna sig mánaðarlega fyrir ókunnugu fólki frá yfirvöldum. En þeir sem ætla að ættleiða þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og þannig yrði það einnig með fólk sem vildi nýta sér staðgöngumæðrun en það væri samt styttra ferli en ættleiðing. Málið snýst fyrst og fremst um réttindi kvenna til að taka ákvörðun um að vera staðgöngumæður ef þær svo óska og um jafnan rétt til mögulegra úrræða, ef úrræði eru læknisfræðilega möguleg og kona vill hjálpa; og þetta er allt persónulegt val.

Það eru engin rök fyrir því að segja að staðgöngumæðrun innan lagaramma væri til þess fallin að verið væri að nota konurnar sem ákveða að vera staðgöngumæður eða misnota aðstæður þeirra eða andlegt ástand. Réttur lagarammi mundi koma í veg fyrir að konur í ójafnvægi væru að taka að sér þessi hlutverk og erfitt væri að misnota aðstæður konu sem væri að gera þetta í velgjörðarskyni. Það hefur verið skoðað hverjir ættu að geta nýtt sér staðgöngumæðrun og ég tel að auðvelt sé að koma í veg fyrir að konur sem geta eignast börn með eðlilegum hætti en vilja það ekki af einhverjum ástæðum notfæri sér þessa leið. Við erum að tala um konur sem gætu ekki gengið með barnið sjálfar, t.d. ef þær væru algerlega ófrjóar, hafa ekki leg annaðhvort frá fæðingu, vegna aðgerðar eða út af einhverjum sjúkdómum.

Til að mega nýta sér staðgöngumæðrun þyrftu konurnar að láta staðfesta það af viðkomandi læknum og sérfræðingum að þær gætu ekki gengið með barnið sjálfar. Það kom fram í skýrslu vinnuhóps velferðarráðuneytisins um staðgöngumæðrun að allt upp í fimm konur þurfi á þessu úrræði að halda árlega svo að framkvæmd og eftirfylgni væri síður en svo umfangsmikil. Og hver erum við að geta sagt að konur séu ekki nógu gáfaðar eða rökrétt hugsandi og heilbrigðar til að taka þá ákvörðun sjálfar að ganga með barn jafnvel þó að það sé handa einhverjum öðrum? Í kynlífs- og frjósemisréttindum Amnesty International er skýrt tekið fram að hver kona á að geta tekið ákvarðanir er varða heilsu hennar og einnig ákveða hvort og hvenær hún vill eignast börn. Af hverju á hún þá ekki að geta tekið ákvörðun um að eignast barn fyrir einhvern annan?

Eins og fram hefur komið í vinnu Alþingis þá viljum við miða við að staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé bönnuð. Við viljum að hún verði hluti heilbrigðisþjónustu hérlendis sé hún í velgjörðarskyni Við viljum byggja upp lagaramma og sjá til þess að sérfræðingar sem hafa þekkingu á málinu séu með eftirlit með því frá byrjun. Við viljum reyna að koma í veg fyrir að fólk sé að finna sér smugu fram hjá lögunum til að geta gert þetta í gegnum önnur lönd. Auðvitað getum við ekki bundið viðkomandi staðgöngumóður við samning þar sem hún afsalar sér rétti á eigin líkama því að ófyrirsjáanleg vandamál geta verið mörg og mismunandi. Því væri ekki hægt að segja staðgöngumóður að hún verði að ganga alla leið með barnið ef það fæli í sér þá hættu að skaða hana á einhvern hátt, t.d. hvað varðar heilsufar.

Margir setja fram þá spurningu í svona máli: Hvert er foreldrið? Ef komið er fyrir sæði úr tilvonandi föður og eggi úr tilvonandi móður í staðgöngumóður þá eru tilvonandi foreldrar blóðforeldrar barnsins. Það er meðal annars það sem á að leggja upp með í þessari vinnu. Og það er gott að styðjast við ættleiðingarlög þegar við erum að skoða hvernig lagaramma skuli byggja upp í kringum staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni því þegar þú ættleiðir barn þá ertu að fá barn sem einhver annar eignaðist og gat einhverra hluta vegna ekki alið það upp og vildi því að einhver annar gerði það þrátt fyrir að hafa gengið með það í níu mánuði.

Þegar þú nýtir þér staðgöngumæðrun þá ertu að fá barn sem einhver annar eignaðist og vildi að þú mundir ala upp, barn sem þú ættir sem blóðforeldri þrátt fyrir að hafa ekki gengið með það í níu mánuði. Við getum tryggt lögformleg réttindi staðgöngumóður á meðan á meðgöngu stendur og þangað til barnið er fætt og hún afsalar sér barninu til tilvonandi foreldra. En við erum samt sem áður að takast á við málaflokk þar sem lögfræðileg sjónarmið koma á móti siðferðilegum sjónarmiðum og þetta er einn erfiðasti málaflokkur sem hægt er að takast á við. Í ljósi þess — að kona sem vill vera staðgöngumóðir í velgjörðarskyni segir: Já, ég vil taka þátt í þessu ferli; og tilvonandi foreldrar segja: Já, við viljum ganga í gegnum þetta með þessari konu — yrðu tveir til þrír aðilar að gefa samþykki sitt í máli þar sem ekki er bara erfitt að sjá fyrir hvað mundi gerast næstu níu mánuðina heldur ómögulegt því að við getum aldrei sagt fyrir hvaða vandamál geta komið upp. Það er rosalega mikil vinna eftir áður en við fáum endanlegt svar. Það verður að athuga hvernig hægt er að tryggja réttindi allra aðila í hverju máli en ávallt með hag barnsins að leiðarljósi. Staðgöngumæðrun getur verið raunverulegur valmöguleiki fólks sem ekki getur eignast barn með náttúrulegum hætti. Ég tel að við séum ekki komin það langt í umræðunni að við getum bara sagt nei.

Það sem stefnt er að í vinnu við frumvarpið, og hæstv. heilbrigðisráðherra fór yfir hér áðan, er ég mjög ánægð með. Í nokkrum punktum komu fram hugmyndir um hvernig girða eigi fyrir helstu vandamálin. Það er að afnema bann við staðgöngumæðrun, setja ströng skilyrði, fá skýrt samþykki, næst hvernig frjóvgun fari fram, hvernig meðgöngu verði háttað, að tryggja verði eftirlit frá byrjun, að sömu lög muni gilda fyrir barnið um að vita uppruna sinn eins og til dæmis er í ættleiðingarlögum, þar sem þú verður að segja barninu frá uppruna þess þegar það hefur náð vissum aldri eða þroska, og hvernig skuli staðið að því að tryggja tilvonandi foreldrum fullan foreldrarétt og koma í veg fyrir greiðslu á nokkurn hátt. Tækniframfarir auk framfara í læknavísindum og breytinga á samsetningu og skoðunum í þjóðfélaginu gefur okkur ekki lengur tækifæri til að hunsa þennan möguleika.

Við viljum oft horfa til annarra norrænna þjóða til samanburðar. Í Finnlandi, þar sem staðgöngumæðrun var leyfð til lengri tíma, var gerð rannsókn á staðgöngumæðrum á tímabilinu janúar 1991 til maí 2001. Tæknifrjóvgun var reynd hjá 17 konum og fæddust 11 börn í velgjörðarskyni. Þar urðu til níu einburar, eitt sett af tvíburum og eitt fósturlát varð. Öll pörin komu frá Norðurlöndunum og fundu staðgöngumæðurnar sjálf. Allar staðgöngumæður nema þrjár voru skyldar eða nátengdar pörunum. Bæði staðgöngumóðir og tilvonandi foreldrar fengu góða ráðgjöf. Aðeins tvær staðgöngumæður fengu fæðingarþunglyndi sem er frekar eðlileg tala ef litið er til viðmiða kvenna sem fæða sín eigin börn og ala þau upp sjálfar en fá samt sem áður fæðingarþunglyndi. Allir aðilar fengu aðgengi að ráðgjöf á meðan meðganga stóð yfir og einnig á eftir. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni gæti með góðri ráðgjöf og vönduðum vinnubrögðum farið vel fram og verið farsæl lausn á ófrjósemi.

Ég tel til bóta að búa til lagalega umgjörð um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Með því erum við að tryggja fólki sem ætlar sér að nýta þennan möguleika sem og börnum þeirra öruggt líf því raunveruleikinn er sá að þeir sem ætla sér að nýta þennan möguleika gera það. Þeir gera það bara ekki hér innan lands og við vitum örugglega flest um að minnsta kosti eitt ef ekki fleiri dæmi þess.

Með góðum samningum, lögum og reglum trúi ég statt og stöðugt að mikil vinna geti skilað því að tilvonandi foreldrar komi nákvæmlega eins að málinu og þau væru bara tvö, þ.e. þau skilja það einnig á pappírum að hvað sem er getur komið upp á meðgöngu og hvað sem er getur verið að barninu til að koma í veg fyrir, þar sem fólk notar þessa hræðslusögu oft, að fólk stingi af frá barninu ef það kemst að því að eitthvað sé að því eða þá að það vilji lögsækja staðgöngumóðurina ef hún missir fóstrið o.s.frv. Ef barn fæðist með náttúrulegum hætti þá gerir parið sér fyllilega grein fyrir því að hvað sem er getur komið fyrir. Því tel ég og trúi fast að hægt sé að koma því þannig fyrir í samningnum sem gerður væri í kringum staðgöngumæðraferlið að hægt væri að setja niður á blað að parið mundi sem sagt heita því að standa við það að verða foreldrar barnsins sama hvað gengur á eða láta kyrrt liggja ef eitthvað alvarlegt kemur upp á.

Ég er mjög ánægð með að við skulum vera að ræða þessi mál hér á Alþingi og ég er mjög ánægð með þá stefnu sem hefur verið tekin í málinu. Ég er ánægð með að við alþingismenn fáum að heyra hvar vinnan er stödd. Ég kallaði eftir því síðasta sumar og ég er mjög ánægð með að við fáum frekari upplýsingar um málið eftir því sem á líður vinnuna. Við þurfum að ræða þetta mál og finna einhverja framkvæmdalausn og það verður aðeins gert með góðu samráði og rökum á báða bóga. Við verðum að spyrja erfiðu spurninganna og við verðum að finna svör sem stundum eru kannski ekki endilega þau sem við viljum heyra, hvort sem við erum með eða á móti staðgöngumæðrun. En vonandi verður þessi umræða hér í dag enn meira stefnumótandi um þá vinnu sem var sett fyrir Alþingi að búa til frumvarp sem muni lögleiða notkun staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni því að þennan möguleika vantar. Við getum ekki talað um málið eins og þeir sem ekki geta eignast börn á náttúrulegan hátt séu óhæfir foreldrar, við megum ekki fara niður á það plan. Því miður heyrum við það allt of oft að fólk sem er á móti þessu segir bara að það sé ekki réttur neins að geta eignast barn og því eigi ekki að ræða það frekar ef þú getur það ekki og þú eigir bara að nota ættleiðingu. Oft er talað um ættleiðingu eins og það sé það eina sem fólk eigi að horfa til.

Við verðum að passa í komandi vinnu að allir séu jafnir, að barnið gangi fyrir og að við komumst að lokum að niðurstöðu. Beðið hefur verið eftir niðurstöðu allt of lengi og eins og ég hef tekið fram í nokkrum ræðum þá yrði Ísland leiðandi í þessum málum. Ísland hefur verið leiðandi í jafnréttismálum, við höfum verið leiðandi í nýsköpun og af hverju eigum við ekki að vera leiðandi líka í velgjörðarmálum?

Ég vil minna á brot úr ræðu minni frá því í sumar þegar fyrsta samkynhneigða parið á Íslandi ættleiddi barn. Þá sagði annað foreldrið: „En sem betur fer ætla stjórnvöld að lögleiða staðgöngumæðrun. Ef þetta hefði ekki gengið hér þá hefðum við farið til Indlands eða annað til að finna okkur staðgöngumóður. Það er alveg ljóst.“

Við heyrum á þessu að það eru fleiri þarna úti sem eru tilbúnir að ganga í gegnum það að fara til útlanda, finna sér staðgöngumóður, fara í gegnum allt ferlið og koma barninu til Íslands til að geta eignast barn ef þeir geta það ekki á eðlilegan hátt. Það sem ég sé í málinu er einfalt. Annaðhvort gerum við eitthvað í málinu eða fólk heldur áfram að bjarga sér á annan hátt. Það er alveg ljóst.