143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[19:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir umræðuna og ágæta greinargerð frá hæstv. ráðherra. Ég tel að sú umræða sem hér hefur farið fram og þau ólíku sjónarmið sem þar hefur verið lýst sýni okkur býsna vel hversu lítt þróuð umræðan er orðin, hversu mörg málþing sem þó kunna að hafa verið haldin og hversu stórar spurningar, bæði lögfræðilegar og siðferðilegar, eru hér sem ósvarað er og óleyst er úr. Ég þakka hæstv. ráðherra og nefndinni fyrir að koma ekki með málið í frumvarpsformi vegna þess að ég tel að málið sé alveg langt í frá að vera þroskað til þess að það megi með einhverjum sóma bera hér fram í frumvarpsformi.

Ég held að það hefði ekki verið málinu til framdráttar eða til sérstakrar farsældar, ef þetta verður innleitt á einhverjum tímapunkti í samfélag okkar, að knýja það í gegn með kröfum í þinglokasamningum, að taka það til afgreiðslu og láta afgreiða það með 70% atkvæða í þingsalnum. Ég held að hluti af því sem þurfi að horfa til, ef af þessu yrði einhvern tíma, yrði það að vera stöðu barnanna vegna og réttinda þeirra vegna gert í býsna miklu siðferðilegu sammæli. Þess vegna sé það öllum fyrir bestu að leyfa þessari umræðu að þroskast og lausnum að verða til á þeim vandamálum sem uppi eru.

Ég vil fyrir mitt leyti áskilja mér rétt til að skipta um skoðun í málinu en eins og það er vaxið núna er ég eindreginn efasemdarmaður um að farsælt væri að taka þetta skref nú. Ég tel ekki að það sé okkur sérstakt keppikefli að verða á undan hinum Norðurlöndunum til að mynda að leysa úr þeim flóknu, siðferðilegu og lögfræðilegu atriðum og láta reynsluna verða hér. Ég held fremur að við eigum að njóta þeirrar sérþekkingar sem þar er að finna, þeirrar reynslu sem þau stóru samfélög byggja á og fylgja þeirri þróun sem þar verður og alþjóðlega í því að fást við þessi úrlausnarefni.

Sumt á ekki að selja. Við erum öll sammála um að það að ganga með barn á ekki að selja. Að lögleiða það í velgjörðarskyni eykur líkurnar á því að það verði selt í okkar samfélagi. Og það er ekkert annað en kjánaskapur að horfast ekki í augu við þá alvarlegu staðreynd þegar þetta mál er til umfjöllunar.