143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[19:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum munnlega skýrslu heilbrigðisráðherra vegna undirbúnings á lagafrumvarpi um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Málið er þess eðlis að um það vakna eðlilega ótal spurningar, siðferðilegar, læknisfræðilegar og hvort það falli undir mannréttindi að eignast barn, eins og hér hefur verið rætt. Það eru mörg alvarleg siðferðileg álitamál sem fylgja staðgöngumæðrun og þau hafa verið reifuð af ýmsum siðfræðingum, læknum, femínistum og öðrum í þjóðfélaginu á undanförnum missirum og árum.

Það er fjöldi álitamála til staðar og við getum alveg búist við því að staðgöngumæðrun leiði til fleiri vandamála en henni er ætlað að leysa. Þótt staðgöngumæðrun sé auðveld úrlausnar á tæknilegum grunni eru siðferðilegu og lagalegu sjónarmiðin flókin. Gæta þarf hagsmuna konunnar sem leggur til líkama sinn, einnig hagsmuna barna hennar sem hún á fyrir, maka hennar og fjölskyldu. Hagsmunir barnsins sem fæðist við slíkar aðstæður þurfa að vera tryggðir og sérstaklega þarf að hafa í huga að upp geta komið óvænt veikindi, t.d. fötlun barns, sem ekki voru séð fyrir en óháð því þarf hagur barnsins að vera tryggður og loks þarf að hafa í huga hagsmuni konunnar og þeirra sem fá barnið afhent eftir fæðingu.

Staðgöngumæðrun má hugsa sér í velgjörðarskyni þar sem náinn ættingi eða vinkona gengur með barn sem velgjörð eða í hagnaðarskyni þar sem staðgöngumóðirin gengur með barn fyrir aðra konu í ábataskyni. Miðað við þau siðferðilegu gildi sem uppi eru í íslensku þjóðfélagi má telja líklegt að mjög margir telji að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sé ásættanleg en staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni sé ekki réttlætanleg.

Reynsla annarra þjóða er að staðgöngmæðrun hefur tilhneigingu til að markaðsvæðast þar sem verð myndast fyrir barn og verð fyrir aðgang að líkama konu. Einnig hafa mörkin sem dregin hafa verið þá tilhneigingu að færast til, þ.e. það sem áður var talið eðlilegt í velgjörðarskyni verður ekki aðeins innan fjölskyldu eða fyrir konu án legs heldur við aðstæður sem í upphafi voru taldar óhugsandi, t.d. ef kona er upptekin vegna vinnu eða vill ekki gangast undir þær líkamlegu breytingar sem fylgja þungun og hún hefur fjárráð til að kaupa sér staðgöngumóður. Við þessar aðstæður geta mörkin orðið óljós. Breyting á mörkum er þróun sem hefur gerst á öllum sviðum læknisfræðinnar þegar ný tækni kemur til sögunnar. Þetta á við um bæði um líffæragjafir og glasafrjóvganir, ef tæknin er komin og aðgerð tekst vel færast æ fleiri yfir í þann hóp sem þarf á meðferð að halda þó svo upphaflega hafi úrræðið aðeins verið hugsað fyrir mjög takmarkaðan hóp.

Þegar upp er komin sú staða að vel fjáð kona getur keypt sér þessa þjónustu verður mismunun eftir fjárhag, en þetta eru eðlilegar vangaveltur í þessu stóra samhengi. Verði staðgöngumæðrun leyfð getur það sett óeðlilegan þrýsting á nánustu fjölskyldur, t.d. á systur um að ganga með barn fyrir systur sína. Staðgöngumóðir er undir þrýstingi frá væntanlegum foreldrum sem biðja hana að haga sér í samræmi við þeirra óskir, sem setur hömlur á líf hennar.

Þessi skýrsla er vel fram sett og gott að fá hana inn í þingið til umræðu vegna undirbúnings þess frumvarps sem við höfum rætt hér. Ég tel að það að setja lög um að líkami kvenna sé hlutgerður sem tæki til sköpunar barns fyrir þriðja aðila sé ekki ásættanlegt. Ég tel ekki rétt að líkami kvenna verði notaður í því skyni að vera hluti af því læknisferli að kona gangi með barn í þeim eina tilgangi að gefa það frá sér. Það er stærst í mínum huga og það sem ég tek afstöðu til í þessu erfiða máli. Aftur á móti tel ég að við eigum að aðstoða barnlaust fólk með öllum tiltækum hætti, hvort sem það er við ættleiðingu barns, innan lands eða erlendis. Hitt tel ég ekki ganga, að líkami konu sé notaður sem tæki til að framleiða barn sem hún gefur frá sér.