143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

staðgöngumæðrun, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[19:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram sem er málefnaleg og að mörgu leyti upplýsandi um afstöðu einstakra þingmanna til þessa máls. Ég vil ítreka það strax að ég gef mér ekkert fyrir fram í þessum efnum. Vinnan fram undan við þá frumvarpssmíð sem Alþingi fól mér að vinna kallar á vandaða vinnu við leit að svörum við mörgum viðamiklum spurningum, hvort tveggja lögfræðilegum og siðferðilegum.

Meginmarkmiðið í vinnu starfshópsins um staðgöngumæðrun er að finna leiðir við lagasetninguna, frumvarpssmíðina, til að ná þeim markmiðum sem Alþingi setti í ályktuninni frá því í janúar 2012. Það er ekkert einfalt mál að ákveða hvaða leiðir skuli farið til að nálgast þá niðurstöðu sem þar var kallað eftir.

Það er vandasamt og í mörgu flókið að tryggja að eingöngu verði um að ræða staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og um leið takmarka möguleika til að fara utan og nýta verslun með staðgöngumæðrun. Þá þarf að hyggja að mörgu til að tryggja að réttindi allra séu virt en barnið sjálft hlýtur þar að vera í öndvegi, samanber hina mikilvægu réttarreglu um að það ráði ávallt sem barninu er fyrir bestu. En til að Alþingi geti tekið vel ígrundaða ákvörðun við frekari vinnslu málsins þarf að svara ýmsum spurningum eins og nefnt hefur verið. Í vinnunni sem fram undan er þá er stefnt að því að taka til úrvinnslu níu meginatriði sem ég ætla að nefna hér í nokkrum orðum.

Í fyrsta lagi verði núverandi bann við staðgöngumæðrun fellt úr gildi en bætt við tæknifrjóvgunarlög heimild til að framkvæma tæknifrjóvgun á konu sem gengur með barn í velgjörðarskyni í því skyni að afhenda það öðru fólki eftir fæðingu.

Í öðru lagi verði gengið út frá því að þeir sem taki þátt í ferlinu þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði og fyrir getnað fari fram mat á hæfni staðgöngumóður og væntanlegra foreldra. Staðgöngumóðir þurfi að lágmarki að vera hraust og hafa átt barn áður og þá þurfi að liggja fyrir samþykki maka hennar ef hún er í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð. Væntanlegir foreldrar geti verið hvers konar sambúðarfólk sem ekki geti af líffræðilegum orsökum átt barn. Nefndin hefur til athugunar hvort heimila eigi einstaklingum að nýta sér þetta úrræði. Þá þurfi væntanlegir foreldrar að lágmarki að geta tryggt barni þroskavænleg uppeldisskilyrði. Nefndin hefur einnig til skoðunar að gera vensl þessara aðila að skilyrði eða með hvaða hætti megi tryggja að persónulegt samkomulag verði forsenda ferlisins.

Í þriðja lagi vil ég nefna að nefndin hefur til skoðunar hvort gera eigi að skilyrði að að minnsta kosti ein kynfruma komi frá væntanlegum foreldrum. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort heimila eigi staðgöngumóður að leggja til eggfrumu. Það verður gengið út frá því að sú kona sem gengur með og fæðir barnið sem móðirin og yfirfærsla á foreldrastöðu eða sérstök ættleiðing fari fram eftir fæðingu barns að liðnum ákveðnum umþóttunartíma. Í þessu felist fullt sjálfræði staðgöngumóður um allar ákvarðanir tengdar meðgöngunni og fæðingunni.

Staðgöngumóðir njóti sömu þjónustu og aðrar þungaðar konur. Fagleg ráðgjöf sérfræðinga til allra aðila verði tryggð frá upphafi ferlisins til enda.

Réttur barns sem fætt er af staðgöngumóður til að þekkja uppruna sinn verði tryggður. Nefndin mun leggja til að tæknifrjóvgunarlögunum verði breytt þannig að þessi réttur nái til allra barna sem verða til með gjafakynfrumum.

Það þarf að mæla fyrir um farvegi í lögum fyrir yfirfærslu á foreldrastöðu eða foreldrarétti og sérstaka ættleiðingu. Sérstaklega þarf þó að huga að leiðum til að leysa ágreining eftir fæðingu barns. Gert verði ráð fyrir að væntanlegir foreldrar sem taka við barni njóti réttar til fæðingarorlofs.

Það þarf að setja verslunarbann sem í felist að leyfi verði ekki veitt til tæknifrjóvgunar á staðgöngumóður komi greiðsla fyrir. Vegna þessa verði nauðsynlegt að afmarka vel hvaða greiðslur megi fara á milli aðila vegna útlagðs kostnaðar staðgöngumóður. Allar aðrar viðbótargreiðslur yrðu bannaðar og mundu varða refsingu. Auglýsingar og kynning á þessu úrræði varði refsingu.

Milliganga um að gera samninga við erlenda aðila sem bjóða upp á þjónustu staðgöngumæðra eða milliganga um ólögmætar greiðslur milli aðila varði einnig refsingu. Samningar sem gerðir yrðu við erlenda aðila sem bjóða upp á þjónustu staðgöngumæðra í hagnaðarskyni væru sömuleiðis ólögmætir. Allsherjarregla ýtir til hliðar hvers konar erlendum löggjörningum um staðgöngumæðrun.

Loks í níunda lagi verði að taka sérstaka afstöðu til réttarstöðu barna sem kunna að verða til með aðstoð staðgöngumæðra í útlöndum.

Virðulegi forseti. Siðferðileg rök vega þungt í stefnumörkun um þetta sérstæða viðfangsefni vegna þess að breytingar í læknisfræði, tækni, samgöngum og þjóðfélagsgerð hafa opnað nýja möguleika sem samfélög, jafnt okkar sem annarra ríkja, standa frammi fyrir og komast vart hjá að taka afstöðu til. Það er mjög mikilvægt að alþingismenn hafi í huga að siðferðileg rök eru ýmist vísun í mögulegar eða líklegar afleiðingar ákvarðana eða tilvísun í það hvernig breytni fellur að tilteknum siðalögmálum. Í því tilviki sem hér um ræðir, hvort það sé til bóta að lögfesta umgjörð um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni eða ekki, er eðlilegt að horft sé til stöðu þekkingar um áhrif staðgöngumæðrunar á þá einstaklinga sem hlut mundu eiga að máli og þar með á samfélagið.

Ráðuneyti mitt mun á grundvelli vinnu starfshópsins leggja sig sérstaklega fram um að Alþingi og þingnefndir fái greiðan aðgang að upplýsingum um þær rannsóknir sem þekktar eru og geti þannig betur metið málið á grundvelli bestu þekkingar. Við þurfum einnig að hafa hugfast að í umræðu á Alþingi um ákvörðun þar sem siðfræðileg rök ráða óhjákvæmilega svo miklu eru málefnaleg rök byggð á siðviti hvers og eins gild rök, en þau þurfa að þola rökræðu og skoðanaskipti.

Ég vil ítreka þakkir fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og vænti góðs samstarfs við þingmenn og þær nefndir sem kunna að fjalla um málið þegar því vindur fram í vinnslu.