143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

aðkoma ríkisins að kjarasamningum.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður gat um að þó að skattkerfið geti hentað vel sem tekjujöfnunartæki þá eru þó takmörk fyrir því hvað það getur náð langt, þ.e. það er hætta á því að til verði láglaunagildra vegna þess að jaðaráhrifin verði það mikil að það borgi sig hvorki fyrir atvinnurekendur að hækka launin vegna þess að það skili sér einfaldlega ekki, né fyrir fólk að vinna meira vegna þess að það skili mjög litlum viðbótartekjum þegar upp er staðið.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður nefnir að þá stendur það eftir að ráðist verður í meiri launahækkun hjá þeim lægst launuðu en öðrum eða að staða þeirra verður bætt hlutfallslega. Það er að mínu mati best gert með því að vera ekki alltaf að einblína á prósentur heldur líta á krónutöluhækkanir. Það fannst mér að verkalýðshreyfingin hefði átt að gera meira af í aðdraganda kjarasamninga fyrir áramót. Reyndar er rétt að minna á það hér að það var alls ekki samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar um hver væri besta nálgunin af hálfu ríkisins, hvernig ríkið gæti best komið þar að málum. Það var ekki fyrr en menn sáu að þingstörfum var að ljúka hér fyrir áramót að þeir ruku til og ákváðu að reyna að fá stjórnvöld með að borðinu. Það skilaði því að farin var leið þar sem blandað var saman ólíkum áherslum.

Hvað varðar hins vegar þær viðræður sem nú standa yfir þá þekkir hv. þingmaður það auðvitað að ríkisstjórnin stendur ekki í samningaviðræðum við launþega á opinbera markaðnum. Hv. þingmanni er fullljóst hvernig staðið er að slíkum viðræðum. Vonandi leiða þær til sem mestra kjarabóta en raunverulegar kjarabætur, kaupmáttaraukning til langs tíma næst ekki nema með stöðugleika. Þess vegna hefur verið lögð ofuráhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að skapa þann stöðugleika til að byggja raunverulega kaupmáttaraukningu á.