143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

aðkoma ríkisins að kjarasamningum.

[15:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. forsætisráðherra semur kannski ekki beint við samtök opinberra starfsmanna eða við Alþýðusambandið fyrir hönd þeirra starfsmanna sem í því eru og vinna hjá ríkinu. En forsætisráðherra markar auðvitað stefnu og hann gaf upp tiltekinn bolta í áramótaávarpinu.

Ég skildi hæstv. forsætisráðherra þannig hér áðan að hann væri að gagnrýna þær áherslur sem hefðu verið í kjarasamningum fyrir jól og vildi að lægstu laun hefðu verið hækkuð meira. Ég vildi gjarnan fá staðfestingu hæstv. forsætisráðherra á því.

Þá hljótum við, vegna þess að fjármálaráðherra semur við starfsmenn ríkisins, að búast við því að þessari almennu stefnumörkun forsætisráðherra, um áherslu á hækkun lægstu launa, fylgi tilboð til viðsemjenda um sérstakar hækkanir sem nýtast hinum lægst launuðu umfram aðra.