143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

hönnunarstefna stjórnvalda.

[15:22]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta hv. þingmann hvað það varðar að ekki hafi verið sátt um hönnunarsjóð. Það var sátt um hönnunarsjóð. (BjG: Það var sátt um sjóðinn, ekki um fjármögnun.) Það var sátt um sjóðinn en við höfum tekist á um það hér áður að ekki var sátt um fjármögnun á ýmsum verkefnum, mörgum hverjum mjög góðum, sem síðasta ríkisstjórn hafði sett í forgang án þess að hafa fjármögnunina tiltæka. Það er því sátt um hönnunarsjóðinn sem slíkan og það var sátt um þær 25 millj. kr. sem voru settar í hann við afgreiðslu fjárlaga. Það er það fjármagn sem sjóðurinn hefur úr að spila á þessu ári. Framtíðin leiðir í ljós hvernig við munum tryggja fjármuni til sjóðsins.

Þessi hönnunarstefna, aukning á veg og vitund hönnunar, er einmitt það sem hv. þingmaður nefnir, (Forseti hringir.) grunnur að aukinni verðmætasköpun. Ég held því að við ættum að líta á þetta sem tækifæri til þess (Forseti hringir.) en ekki einungis að horfa til þess hversu mikið við getum (Forseti hringir.) styrkt hönnun úr ríkissjóði. Við þurfum að koma þessu (Forseti hringir.) þannig fyrir að þetta sé verðmætasköpun (Forseti hringir.) sem við horfum til fyrir allt þjóðfélagið.