143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

hjúkrunarheimilið Sólvangur.

[15:24]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Sólvangur í Hafnarfirði hefur starfað í um 60 ár og þar búa nú 56 aldraðir. Auk þess er þar pláss fyrir tvo í hvíldarinnlögn. Stöðugildum hefur fækkað um 25 frá árinu 2011. Árið 2012 gerði landlæknir úttekt á starfseminni samkvæmt beiðni forsvarsmanna Sólvangs og var niðurstaðan sú að óráðlegt þótti vegna öryggis og gæða að skera meira niður. Samt var haldið áfram að fækka stöðugildum í fyrra.

Vegna niðurskurðarins hefur meðal annars þurft að fjötra suma heimilismenn í öryggisskyni, við þekkjum þá umræðu úr fjölmiðlum, því að það er hreinlega ekki mannskapur til að sinna öllum heimilismönnum eins og nauðsynlegt er.

Við Sólvang vinnur hins vegar harðduglegt starfsfólk sem gerir sitt besta við erfiðar aðstæður. Við getum því ekki kennt því um hvernig komið er.

Hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson óskaði eftir því við starfsmenn ráðuneytisins og landlæknisembættið fyrir rúmum mánuði að reynt yrði að finna lausn á málinu og því vil ég spyrja heilbrigðisráðherra hvort lausn sé fundin á málefnum Sólvangs eða ekki.