143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

hjúkrunarheimilið Sólvangur.

[15:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það kann vel að vera að það valdi fólki vonbrigðum að ekki sé komin lausn á þessu, en eins og málið barst til mín var lausnin fólgin í því að meiri fjármunir kæmu inn í þetta heimili. Við þekkjum öll umræðuna um Sunnuhlíð og það er sömuleiðis stórt mál sem við erum að glíma við. Við erum að sjálfsögðu bundin af því í þessum hluta rekstrarins að reyna að halda fjárlögin fyrir öldrunarmálin og þar inni eru um 22 milljarðar til allra hjúkrunar- og öldrunarheimila í landinu.

Þannig stendur það og innan þess ramma verðum við að reyna að vinna að því að gera þetta sem best við getum. Hvernig það mun leiðast út get ég á þessari stundu ekki svarað neinu til um. Ég vænti þess hins vegar að við munum kynna þær tillögur eða ráðstafanir sem gripið verður til þegar við erum í færum til þess, m.a. eftir að við höfum fengið úttekt landlæknisembættis á þeirri stöðu sem nú er uppi á Sólvangi.