143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka fyrir þá tilhliðran að gefa mér orðið. Ég sé ástæðu til að vekja athygli á og spyrja hverju sæti og klaga yfir því að hæstv. innanríkisráðherra er ekki hér til að svara óundirbúnum fyrirspurnum. Ég hafði í morgun fyrir því að senda ósk um slíka fyrirspurn hér á þingið og fékk það svar að liðinni nokkurri stund að hæstv. innanríkisráðherra, sem hafði verið boðaður í fyrirsvari fyrir slíka fyrirspurn, hefði boðað forföll.

Þetta getur auðvitað átt sínar eðlilegu ástæður en hér gegnir sérstöku máli. Það hefur gerst, sem er fordæmislaust í stjórnarráðssögunni að því er ég best veit, að nú fer fram lögreglurannsókn í ráðuneyti ráðherrans og það er eðlilegt að hann sé hér til svara. Ég spyr forseta hvort það sé ekki alveg öruggt að hann verði hér á miðvikudaginn, eins og boðað er, eða hvort hann boði þá forföll aftur.

Ég vil líka spyrja forseta hvort ekki komi til greina við þessar sérstöku aðstæður að ráðherrann flytji hér (Forseti hringir.) yfirlýsingu sem þingmenn geti síðan rætt um og rætt við ráðherrann þau tilvik sem komið hafa upp í þessu máli.