143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Þessi umræða sem hafin er hér af hálfu hv. stjórnarliða er með ólíkindum. Hv. þingmaður byrjaði á því að segja að honum hefði þótt miður að hafa misst af því að ráðherra sæti hér fyrir svörum í morgun eins og auglýst hefði verið og spurði hvort ekki væri öruggt að það stæði eins og auglýst hefði verið að hún yrði hér á miðvikudaginn vegna þess að hann teldi mikilvægt að ræða þetta mikilvæga mál hér. Ég talaði um að rannsókn væri í gangi á embættisfærslum innan ráðuneytisins. Ég talaði aldrei um ráðherra, það var hv. þingmaður sem dró hana inn í umræðuna hvað þessa rannsókn varðaði, þannig að stjórnarliðar ættu líka að slaka á í vörninni í þessu máli.

Það er með hreinum ólíkindum hvað menn eru farnir að ganga langt í vörninni, þeir eru komnir lengra í vörninni fyrir málum sem við erum ekki einu sinni að ræða hér. Hvað segir það um það sem gengur á í höfði þeirra hvað þetta mál varðar? Það er eitthvað annað en við erum að ræða hér, þannig að (Forseti hringir.) þeir hljóta sjálfir að halda að eitthvað meira hafi gengið á en það sem stjórnarandstæðingar hafa nefnt hér.