143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[16:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir alveg prýðilega ræðu, sér í lagi ýmsar yfirlýsingar sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra, sem mér fundust merkilegar og jafnvel örlítið sögulegar þó að með hljóðlátum hætti væru.

Í upphafi vil ég segja að ég fagna þessu frumvarpi og ég ímynda mér að ekki verði erfitt fyrir utanríkismálanefnd og hv. Alþingi að ljúka því. Króötum ber að óska til hamingju með að vera orðnir fullgildir aðilar að Evrópusambandinu, það sóttu þeir mjög fast og er það í þágu hagsmuna króatískra borgara. Sömuleiðis var það aukabónus að um leið var til hvílu lögð langvinn tólf ára landamæradeila við nágrannaríkið Slóveníu. Það skipti máli að fá atbeina Evrópusambandsins til þess að leysa þann erfiða hnút millum nágrannaríkjanna.

Í fljótu bragði er fátt sem hægt er að segja um þetta frumvarp sem er þess virði að aka neikvæðni á. Mér finnst vel hafa tekist til með það. Hæstv. ráðherra fór yfir þá samninga sem við þurfum að gera við Evrópusambandið vegna aukinna greiðslna, af því að við fáum aukinn markaðsaðgang, höfðum áður fríverslun við Króatíu, og mér sýnist að það hafi tekist alveg prýðilega. Við fáum aukinn kvóta bæði fyrir humar og karfa, 60 og 40 tonn á hvora tegund, og greiðum fyrir það 26 millj. kr. í þróunarsjóð. Það sýnist mér að séu ágæt býti fyrir okkur og hef ekkert út á það að setja. Það væri fróðlegt að heyra hversu mikið kemur í hlut Norðmanna að greiða fyrir aðild Króatíu að Evrópusambandinu og þann aukna markaðsaðgang sem þeir fá, ef hæstv. ráðherra hefur þær tölur á reiðum höndum. Annars verður okkur ekki skotaskuld úr því að fá þær upplýsingar í utanríkismálanefnd þegar að kemur umræðu þar.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson spurði hæstv. ráðherra út í hluti sem varða ekki beinlínis þetta frumvarp en þó með óbeinum hætti aðild okkar að EFS. Mig langar þá, af því að við dveljum hér við tollkvóta millum Evrópusambandsins og Íslands, að spyrja hæstv. ráðherra um skylt mál er varðar hækkun á tollkvóta Íslands gagnvart Evrópusambandinu: Eru einhver tíðindi af því máli? Mér er kunnugt um að það mál hefur verið rekið af hálfu ráðuneytisins um nokkurra missira skeið og íslenskur landbúnaður hefur sótt það fast vegna aukinnar eftirspurnar eftir skyri og ekki síst lambakjöti. Við sem erum hlynntir skagfirska efnahagssvæðinu berum auðvitað hagsmuni íslensks landbúnaðar alltaf fyrir brjósti. Ef hæstv. ráðherra hefur einhverjar upplýsingar um það væri gaman að fá þær þegar hann flytur sína seinni ræðu hér á eftir.

Ég sé að hv. formaður utanríkismálanefndar, Birgir Ármannsson, glottir breitt. Sennilega hefur það líka glatt hann að þegar maður les þetta frumvarp og texta sem því fylgja kemur í ljós að okkar ágætu vinum í Króatíu hefur tekist að fá margvíslegar undanþágur frá reglum og stofnsamningum ESB, sem varða t.d. landbúnaðarvörur, og er það vel. Það er ein ástæðan fyrir því að við þurfum að samþykkja þetta frumvarp vegna þess að í framhaldinu þarf líka að breyta ýmsu sem tengist Evrópska efnahagssvæðinu.

Þetta nefni ég nú af því að það er eins og mitt hrörnandi minni reki að því í hugardjúpum mínum að hæstv. ráðherra hafi haldið hér alveg rosalega merkilegar ræður á síðasta kjörtímabili þar sem hann taldi að það væri hvorki fugli fljúganda né nokkurri mannlegri veru mögulegt að fá eina eða neina aðlögun eða breytingu frá þeim stífu reglum sem gilda innan Evrópusambandsins. Ég minnist þess að hæstv. ráðherra, sem er alinn upp við sveitastörf og hefur sýnt mikinn áhuga á þeim og örugglega mikinn dugað á yngri árum, eru málefni landbúnaðarins kær, en hann hélt því fram mjög stíft að það þýddi ekkert fyrir Ísland að ætlast til þess að fá einhverjar undanþágur. Varla erum við lakari en Króatar. Ef svo færi nú að íslenska þjóðin mundi samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að halda áfram samningunum þá treysti ég alveg þessum sveitastrák úr Skagafirði til þess að standa fast á hagsmunum íslensks landbúnaðar og ná fram þeim markmiðum sem Alþingi gerði á sínum tíma að eins konar leiðarvísi í slíkum viðræðum. Það vildi ég segja til þess að gleðja hæstv. ráðherra að við fylgjumst með og ef það er svo að hæstv. ráðherra hafi hugsanlega ekki lesið smæstu smáatriðin í þeim greinargerðum sem hann hefur sjálfur lagt fram þá vildi ég bara hjálpa honum að rifja þetta upp. Lengi er von á einum. Ég veit að hæstv. ráðherra er skynsamur maður og þegar hann sér þetta liggja fyrir í því þingmáli sem hann leggur sjálfur fyrir þingið fær það hann kannski til þess að hugsa málið upp á nýtt og skilja það í ljósi eigin upplýsinga að vera kunni að sumt af því sem hann sagði áður um þessa hluti og Ísland hafi kannski ekki verið alveg jafn fjallgrimm staðreynd eins og hann vildi þá vera láta.

Hér hafa spunnist umræður um frjálsa för. Það er fullkomlega lögmætt að menn velti því fyrir sér þegar verið er að opna fyrir frjálsa för launafólks úr heilu landi, það er skiljanlegt að þá staldri menn við. Á sínum tíma var stækkun upp á tíu ríki. Það var stór biti, en það er athyglisvert að sjá hvernig umræður um vinnumál hafa þróast. Mikil umræða hefur verið í Bretlandi um Evrópusambandið og aðild Breta að því. Á sínum tíma fékk breska þjóðin, eins og menn muna, ekki að greiða atkvæði um það hvort hún yrði aðili að Evrópubandalaginu, eins og það hét þá. Það urðu að vísu alveg rosalega harðar og merkilegar umræður í breska þinginu sem fróðlegt er að lesa. Fæst af því sem andstæðingar sögðu þá gekk eftir.

Eitt af því sem menn hafa barið bumbur út af í Bretlandi í umræðunni sem þar hefur geisað nokkuð hart síðustu missiri er einmitt að við síðastliðin áramót opnaðist fyrir frjálsa för Rúmena inn til Bretlandseyja og töldu menn að þá mundi koma straumur fólks þaðan. Sérstakur stjórnmálaflokkur, UKIP, sem nú kann að reynast mjög skeinuhættur hinum eldri stjórnmálaflokkum þar og veifar sveðju ekki síst að Íhaldsflokknum en líka Verkamannaflokknum, hefur beinlínis haft það sem sitt stærsta mál fram að næstliðnum áramótum að fast að 500 þús. Rúmenar gætu komið og sótt sér vinnu og starfað innan Bretlandseyja. Nú er komin nokkurra mánaða reynsla á það. Menn bjuggust við því að Rúmenar streymdu til landsins, miðað við það sem sumir hörðustu þingmenn og andstæðingar ESB innan Íhaldsflokksins sögðu og miðað við það sem Farage, formaður UKIP, sagði. En það varð enginn straumur. Breskir fjölmiðlar hafa fylgst ákaflega vel með því. Það mátti lengi vel telja á nokkrum tugum þá sem þangað sóttu. Ástæðan er auðvitað sú að það er sama reynsla og okkar Íslendinga af Rúmenum og Búlgörum að þegar hart er í ári á vinnumarkaði sækja menn ekki úr framandi löndum hingað til Íslands.

Þetta er í reynd svarið við þeirri spurningu sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson varpaði fram til hæstv. ráðherra. Reynsla okkar af því að hafa opnað íslenskan vinnumarkað fyrir Rúmenum og Búlgörum árið 2007 er sú að nánast engir komu. Ástæðan er væntanlega sú að skömmu eftir að landamærin opnuðust fyrir þeim 2008 varð kreppa hér á Íslandi, það varð hrun á vinnumarkaði, atvinnuleysi sleikti 10% og var á síðasta ári 5,5% eða þar um bil, nærfellt 9 þús. manns gengu um atvinnulausir. Þess vegna sækir fólk ekki hingað yfir hafið frá fjörrum löndum.

Það eina sem ég geri því athugasemdir við í frumvarpinu er texti þar sem segir að fylgjast þurfi grannt með því hversu margir launamenn komi hingað frá Króatíu í fyllingu tímans þegar búið er að opna landamærin fyrir þeim. Reynslan liggur fyrir. Reynsla okkar er sú að það komu nánast engir frá Rúmeníu eða Búlgaríu. Þó var sú jákvæða undantekning að sumarið 2008 kom hér hópur Rúmena í litskrúðugum klæðum með mikið af hljóðfærum sem sóttu m.a. fund hjá stjórnmálaflokki sem ég var þá í og er enn í og lífguðu mjög upp á hann. Þetta var Rómafólk sem hér var sumarlangt og gladdi fólk, m.a. okkur þingmenn sem áttum leið um miðbæinn. Það fór allt um haustið af því að það var kalt á Íslandi. Það var ástæðan sem það góða fólk gaf upp þegar það kvaddi okkur og var aufúsugestir hér.

Í þessu ljósi fagna ég þeirri yfirlýsingu hjá hæstv. ráðherra, sem mér finnst mjög merkileg, þegar hann sagðist ekki gera ráð fyrir því að það yrði nauðsynlegt að framlengja frestinn á opnun vinnumarkaðarins. Eftir stopulu og rosknu minni mínu minnir mig að hæstv. ráðherra gæti árið 2015 framlengt það um þrjú ár og síðan aftur, ef veruleg vá er þá á vinnumarkaði, um enn önnur tvö ár. Ég held að reynsla okkar af opnum landamærum gagnvart Búlgaríu og Rúmeníu 2007, reynsla Breta af opnun landamæranna gagnvart Rúmeníu núna um síðustu áramót sýni að ef hart er í ári á vinnumarkaði kemur fólk ekki í atvinnuleit. En ef það er gott í ári þá þurfum við á því að halda. Það er akkúrat það sem gerðist þegar stóra stækkunin varð og þegar tíu þjóðir fengu frjálsan aðgang að íslenskum vinnumarkaði, þá var uppgangur hér og má segja að frjáls för fólks frá þeim tíu löndum hafi komið í veg fyrir óðaverðbólgu á Íslandi, varð eins konar bjargráð fyrir íslenskt atvinnulíf.

Ég held því að þetta stilli sig sjálft af. Ég er því sammála hæstv. ráðherra um að ég tel ekki neina sérstaka þörf á því að framlengja, vinnumarkaðurinn stillir þetta bara af sjálfur. Hins vegar ætla ég ekki að gera ágreining við hæstv. ráðherra, ég fellst á að það er varfærnislega stigið til jarðar að notfæra sér þennan upphaflega frest og geri engar athugasemdir við það. Mig minnir að einhvern tíma hafi ríkisstjórn sem ég sat í á síðustu öld — kannski rangminnir mig, en íslenskar ríkisstjórnir hafa notfært sér þennan frest. Minn flokkur studdi það í stjórnarandstöðu á sínum tíma og þess vegna skil ég þetta. Það er varfærnislega gert, en ég er ekkert viss um að það sé nein sérstök þörf á því.

Hin yfirlýsingin sem ég ætla að gera hér að umræðuefni, sem mér fannst merkileg hjá hæstv. ráðherra, er eftirfarandi: Hæstv. ráðherra sagði að hann mundi núna á næstunni á fundum með kollegum sínum, utanríkisráðherrum EES-landanna, taka upp EES-samninginn og ræða stöðu hans, hvernig hann hefur þróast. Ég skildi hann þannig að það væri undanfari þess að hann mundi freista þess að breyta EES-samningnum. Ég hlýt auðvitað aðeins að drepa á það að hæstv. ráðherra sagði að þegar í ljós væri komið hvernig mótaðilar brygðust við þá fyrst mundi hann velta fyrir sér hvort nauðsynlegt væri að breyta stjórnarskránni.

Þá vil ég undirstrika tvennt. Í fyrsta lagi: Ég tel að það sé mikilvægt vegna yfirlýsinga ráðherra beggja stjórnarflokkanna að þeir láti á það reyna hvort hægt sé að breyta EES-samningnum. Ég hef enga trú á því en mér finnst sjálfsagt að þeir leggi höndina í sárið eins og Tómas forðum.

Síðan vil ég í öðru lagi gera ágreining um að þá fyrst eigi menn að skoða hvort breyta eigi stjórnarskránni. Alveg burt séð frá aðild að Evrópusambandinu er ég þeirrar skoðunar að EES-samningurinn sé kominn yfir það gráa svæði sem hinir vísu menn sögðu að hann væri á 1994. Ég tel að ýmis mál, ekki stórvægileg, en ýmis mál sem við höfum þurft að taka upp geri það að verkum að þegar þau eru metin saman séum við komin út yfir þetta gráa svæði. Ég tel sem sagt að EES-samningurinn í dag stangist á við stjórnarskrána. Og alveg eins og ég sagði í ræðum undir umræðum um mál vinkonu okkar og samstarfsfélaga beggja, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, sem flutti hér ágætt þingmál um lagaskrifstofu Alþingis, þá tel ég að þingið eigi ekki að láta þá stöðu ganga lengur að vafi leiki á því hvort stjórnarskráin og EES-samningurinn samrýmist.

Læt ég þá ræðu minni lokið, frú forseti, en ítreka það að ég er sáttur við þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra um að hann ætli sennilega ekki að notfæra sér frestinn árið 2015, ef hann verður þá enn í embætti, og ég er líka sáttur við að hann ætlar að kanna undirtektir við endurskoðun á EES-samningnum. Það skiptir máli að hann upplifi hið sama og Tómas postuli.