143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[16:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það má kannski segja „litlu verður Vöggur feginn“ þegar hæstv. utanríkisráðherra fellur í stafi yfir þeim miklu tíðindum að í Þýskalandi sé að koma fram flokkur sem er á móti evrunni og hefur náð þeim glæsilega árangri í skoðanakönnunum að geta hugsanlega dottið inn á þing. Þá er rétt að rifja upp fyrir hæstv. utanríkisráðherra að ef ég man rétt er 631 þingmaður á þýska þinginu, þannig að hugsanlega er töluverður tími þangað til þeir ryðja evrunni út úr sínu peningakerfi.

Hæstv. ráðherra sagði sömuleiðis, ég skildi hann svo, að það hefði verið rangt af mér að draga þá ályktun af fyrri ræðu hans um þetta mál að hann hygðist að loknum viðræðum við kollega sína úr EES-löndunum beita sér fyrir endurskoðun á samningnum. Það eru líka tíðindi. Það er ágætt að það liggi fyrir að hæstv. utanríkisráðherra ætlar ekki að beita sér fyrir endurskoðun á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það er mjög mikilvæg yfirlýsing. Hví er hún mikilvæg? Vegna þess að hver um annan þveran komu hér þingmenn hans ágæta flokks, á tímabili þegar við ræddum EES-samninginn, og sögðu að það væri nákvæmlega það sem þeir ætluðu að gera.

Ef hæstv. utanríkisráðherra vill fá leiðbeiningar um það hvar hann geti leitað fyrir sér í þingtíðindum til að lesa þær ræður var það til dæmis undir umræðum sem hér voru utan dagskrár að frumkvæði eins af þingmönnum núverandi samstarfsflokks hans um norsku skýrsluna sem kennd er við höfund hennar, Sejersted. Á þeim tíma var á það bent af mér — og ég held líka að minnsta kosti af einum hv. þingmanni VG og nokkrum úr þáverandi stjórnarandstöðu, þar á meðal þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, einum að minnsta kosti — að EES-samningurinn væri kominn yfir þolmörk stjórnarskrárinnar, hann væri þá þegar farinn að brjóta gegn stjórnarskránni.

Það var þá sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal sá ágæti þingmaður sem ég nefndi hér í minni fyrri ræðu og tel óþarft að nefna aftur, sögðu að það sem Framsóknarflokkurinn ætlaði að beita sér fyrir væri að endurskoða EES-samninginn. Það hefur meðal annars komið fram frá fyrrverandi formanni Heimssýnar, okkar ágæta félaga í þessum sölum, hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni, að íslenska ríkisstjórnin sem nú situr mundi beita sér fyrir því að gerðar yrðu breytingar á EES-samningnum með þeim hætti að ekki kæmi til þess að nokkur vafi léki á því að hann samrýmdist stjórnarskránni. Þar af leiðandi dró hv. þingmaður úr þessum stóli þá ályktun, eftir að þetta þing var hafið, að ekki þyrfti að breyta stjórnarskránni.

Það er sem sagt ágætt að það liggi fyrir að hæstv. utanríkisráðherra er til dæmis ósammála hæstv. fjármálaráðherra, sömuleiðis hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að endurskoða þurfi samninginn, vegna þess að það var það sem hann lýsti hér yfir. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að það takist sátt um að breyta stjórnarskránni með þeim hætti að það verði hafið yfir allan vafa að EES-samningurinn samrýmist henni.

Það er rétt að rifja það aftur upp að þegar menn ræddu aðild okkar að EES-samningnum 1993 og fram eftir ári 1994 var það niðurstaða fjögurra lagabrekkna sem voru fengnar til að kanna hvernig hann rímaði við stjórnarskrána að það væri á gráu svæði. Síðan hefur það gerst í nokkrum tilvikum að við höfum neyðst til þess að taka hér upp gerðir og tilskipanir og stjórnarskrárfræðingar, prófessorar, sem voru fengnir til þess að kanna hvort það væri unnt gagnvart stjórnarskránni, hafa komist að þeirri niðurstöðu að þegar þessi einstöku tilvik eru lögð saman séu þau samanlagt komin yfir það sem stjórnarskráin heimilar. Við eigum ekki sem Alþingi að láta það viðgangast.

Frú forseti. Er ég ekki í ræðu?

(Forseti (ValG): Jú, þú ert með fimm mínútur.)

Fimm mínútur? Það er allt of lítið þegar þarf að ræða svo mikil mál.

Þá verða þetta lokaorð mín. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að skoða það mjög vel hvort ekki sé hægt að beita nýsamþykktum lögum til að breyta stjórnarskránni þannig að þetta sé yfir vafa hafið.