143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[16:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er orðinn miklu meiri sérfræðingur en ég í EES-samningnum. Þó verð ég að segja að mér fannst reyndar að sjálfstraust mitt í þeim efnum ykist heldur eftir því sem hans ræðu vatt fram.

Aðalatriðið er þetta. Við erum í ákveðinni stöðu. Hún er sú að ekki er meiri hluti fyrir því, alla vega í ríkisstjórninni, að halda áfram viðræðum við ESB. Þá þurfum við að gera hið besta úr EES-samningnum, sem mér finnst að vísu orðinn afdankaður og úreltur. Það nístir mig að ég er þeirrar skoðunar að hann sé kominn út yfir það sem stjórnarskrá leyfir og færði fyrir því nokkur dæmi sem flestir sem eru undir þessari umræðu þekkja. En við verðum að gera hið besta úr samningnum. Ég tel ekki að hægt sé að breyta honum og ná fram breytingum á honum með þeim hætti að hægt sé að skrúfa til baka og tryggja það með einhverjum breytingum að hann samrýmist stjórnarskránni.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar og sé reyndar glitta í það við dagsbrún að jafnvel að öllu óbreyttu munu koma til þingsins fleiri mál, smá en líka stór mál, sem við munum ekki geta afgreitt án þess að lenda í hreinum árekstri við stjórnarskrána. Ég treysti því að hæstv. utanríkisráðherra og aðrir geri ekki slíka hluti og munu varla ekki leggja í það. Ég er til dæmis að tala um það fjármálaeftirlitskerfi sem blasir við að við munum með einhverjum hætti þurfa að taka upp.

Einnig er vitað, eins og hæstv. utanríkisráðherra veit miklu betur en ég, að ESB hefur þverskallast við þeim málamiðlunum sem hafa verið sýndar þeim af hálfu EFTA-ríkjanna. Ég tel því að við lendum í vandræðum. Þá verða menn að hafa opinn huga gagnvart því að breyta stjórnarskránni þannig að sá árekstur verði ekki en við getum samt haldið áfram innan EES.