143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna.

41. mál
[16:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka utanríkismálanefnd fyrir afgreiðslu tillögunnar og fagna því sérstaklega að hér sé mælt með því að hún verði samþykkt.

Við í Vestnorræna ráðinu vinnum þétt saman, þingmenn landanna þriggja. Eins og fram kemur í tillögunni sjálfri og greinargerð með henni á tillagan rót sína að rekja til þemaráðstefnu sem haldin var á Ísafirði í janúar fyrir ári síðan þar sem fjallað var um heilbrigðismál og hvernig þjóðirnar þrjár geta unnið betur og nánar saman á því málefnasviði.

Það er gaman að sjá að þetta er eitthvað sem ráðherrar landanna þriggja hafa virkilegan áhuga á að gera. Eins og fram kemur í nefndarálitinu er algjörlega ljóst að hægt er að gera betur með því að standa saman að þessum málum.

Mig langar að láta þess getið að við í Vestnorræna ráðinu fórum núna í janúar til Færeyja á þemaráðstefnu og áttum þar m.a. fund með ráðherrum landanna þriggja á sviði heilbrigðismála vegna þess að þeir sátu þá á fundi í Færeyjum til þess að ræða aukið samstarf landanna. Það sýndi okkur og færði okkur heim sanninn um að þjóðirnar eru virkilega að tala saman. Ráðherrunum er full alvara um að vinna nánar saman og útvíkka samstarf landanna. Markmiðið er ekki eingöngu að ná að gera hlutina betur heldur eru menn sannfærðir um að með nánara samstarfi á sviði heilbrigðismála nái þeir jafnframt fram hagræðingu. Það er einstaklega gott að vita til þess að við sjáum fram á samstarf sem getur leitt af sér afskaplega góða hluti og að við getum gert hlutina betur og á ódýrari hátt.