143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[16:39]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp til þess að fagna þessu og tek undir heils hugar með mínum formanni í Vestnorræna ráðinu, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Það hefur verið mikil reynsla fyrir mig sem nýjan þingmann að fá að taka þátt í þessu starfi. Maður hefur fundið það á þeim tveimur fundum sem ég hef verið á að þessi lönd treysta svolítið á okkur og við erum svolítið eins og stóri bróðirinn í þessu samstarfi. Samt sem áður er svo ánægjulegt að taka eftir því að þarna eru allir jafnir. Það eru jafn margir frá öllum löndunum í ráðinu og maður finnur að þeir treysta svolítið á okkur. Mér finnst nú að það hefði mátt vera meiri áhugi þingmanna á Íslandi þegar við ræðum þessi mál vegna þess að mér finnst þau mjög mikilvæg fyrir okkur til framtíðar litið, en nú eru norðurslóðamálin og norðurheimskautsmálin í brennidepli. Þrátt fyrir að við séum kannski ekki jafn tengd norðurslóðum og Grænlendingar eru þarna gríðarleg sóknartækifæri fyrir okkur og þessar þjóðir til að starfa saman, m.a. á sviði heilbrigðismála og margra annarra mála.

Það hefur verið virkilega gaman að taka þátt í þessu samstarfi. Þessar þjóðir eru mjög líkar að mörgu leyti en þær eru líka ólíkar. Þetta er mjög gefandi og gott starf. Það er mjög skemmtilegt, sérstaklega þegar við fórum til Grænlands, að sjá menninguna þar og fá að kynnast henni.

Mér finnst að við Íslendingar eigum að leggja gríðarlega mikla áherslu á þetta samstarf. Við erum náttúrlega, þessar þjóðir, ekki nema 450 þúsund manns, tæplega jafnvel, þegar við erum öll komin saman. Við erum því háðar öðrum og stærri bandalögum á sviði varnar- og öryggismála. Það kom náttúrlega mjög vel fram á Grænlandi í haust þegar Alyson Bailes hélt þar fyrirlestur um þessi mál.

Það er að mörgu að hyggja. En nákvæmlega eins og kom fram í máli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur er mjög mikilvægt að við stöndum saman. Við Íslendingar pössum okkur kannski líka á því sem stærsta þjóðin í þessu samstarfi að vaða ekki yfir þá, nágranna okkar og vini. Stundum finnst manni eins og það sé smáhræðsla í þeim gagnvart því að við séum að fara að verða allsráðandi í þessu samstarfi, en ég held að þeir mundu aldrei samþykkja það, þeir eru nú það grimmir og ákveðnir, þessir ágætu menn og það ágæta fólk sem er í þessari stjórn.

En ég fagna því að við séum að auka samskiptin. Við getum hjálpað þeim mjög mikið og þeir geta hjálpað okkur líka. Ég horfi sérstaklega til framtíðar fyrir okkur Íslendinga, t.d. hvað varðar aukið samstarf í heilbrigðismálum og ekki síst í öryggismálum. Eins og við vitum öll beinist athygli umheimsins mjög mikið að þessum svæðum, sérstaklega Grænlandi sem er náttúrlega uppfullt af auðlindum sem margir ásælast. Við getum hjálpað þeim mikið í því.

Ég fagna þessari þingsályktunartillögu eins og þeirri fyrri og þær eiga eftir að koma fleiri. Ég legg mikla áherslu á það að við stöndum saman í þessu.