143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[16:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Mér líður öllum betur, frú forseti, þegar hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir segist trúa því að árangur muni nást. Hún er fylgin sér. Ég sá það vel í málefnum hinna vestnorrænu landa þegar hún var ein af þeim sem héldu á þeirri niðurskurðarsveðju sem hér var sveiflað yfir þingheimi og landsmönnum öllum í upphafi þingvetrar, en sá væntanlega til þess að sú sveðja var, þrátt fyrir augljósan vilja sumra, ekki látin falla niður gagnvart þeirri sendiskrifstofu sem hún minntist á áðan. Það var auðvitað gæfuspor að menn náðu samstöðu um það. Enginn var á móti því.

Rétt er þá að rifja upp upphaf þess máls sem var tillaga, sem samþykkt var árið 2010, frá Vestnorræna ráðinu en sökum efnahagsóáranar sem kvað rammt að í landi var henni frestað. Ég gerði hinu háa Alþingi grein fyrir því sem utanríkisráðherra að ég hygðist fresta framkvæmd hennar út af því ástandi en náði því eigi að síður, áður en ég hélt til annarra og mikilvægari starfa að hrinda henni í framkvæmd. Það var gæfuspor. Það skiptir miklu að menn sameinist um slíkt og það gerðu menn. Það sýnir hug okkar gagnvart þessari samningu. Ég tel að sú sendiskrifstofa sé góð fjárfesting og hún muni gera í blóðið sitt með þeim hætti að greiða, eins og hún er þegar byrjuð að gera, fyrir þátttöku Íslendinga í atvinnulífi á Grænlandi þar sem mikil uppbygging er sem betur fer.

Ég hvet hv. þingmenn og sérstaklega hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að gefa því gaum að á menningarlega sviðinu erum við líka í góðu samstarfi. Ég nefni sérstaklega landnám skákarinnar sem Hrókurinn og forseti Hróksins, Hrafn Jökulsson, hefur staðið fyrir í Grænlandi. Það er menningarleg iðja sem er skapandi og þarf líka að styðja við í miklu ríkari mæli en okkur hefur tekist hingað til.