143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða hér samskipti við tvær vinaþjóðir okkar. Það er sannarlega ljóst og við vitum það fyrir víst að Færeyingar eru vinir í raun. Ég furða mig á því þegar ég sé fréttir um að þeim hafi ekki verið svarað í eitt og hálft ár hvort nýjustu þotur þeirra megi lenda á Reykjavíkurflugvelli. Ég vitna í viðtal við Guðriði Helenu Petersen sem er formaður Færeyingafélagsins á Íslandi. Hún segist ekki skilja hvers vegna Færeyingar megi ekki skipta um þotutegund. „Ég er alla vega ekki búin að átta mig á hvað málið sé,“ segir hún. Ég held að vinir okkar séu búnir að fljúga hingað til Reykjavíkur í hálfa öld.

Önnur vinaþjóð okkar, það verður bara að segjast eins og er, kemur hins vegar afskaplega sérkennilega fram við okkur Íslendinga. Þá er ég að vísa til Norðmanna út af makríldeilunni. Þar í landi fara menn hörðum orðum um okkur Íslendinga og kalla okkur meðal annars sjóræningja á opinberum vettvangi. Á sama tíma og Norðmenn sýna algjöra óbilgirni í þessu deilumáli fara þeir fram á, og ég vek athygli á því, að veidd séu 50–60% umfram ráðgjöf. Það er þvert á yfirlýsta stefnu Norðmanna og auðvitað okkar Íslendinga um sjálfbærni veiða. Reyndar hafa sérfræðingar upplýst að ef farið yrði eftir þeim ráðleggingum gæti það leitt til markaðshruns á þessari verðmætu fisktegund.

Ég vona að við munum sjá það að vinir okkar, Norðmenn, muni sýna í orði að þeir vilji stunda sjálfbærar veiðar (Forseti hringir.) og séu sanngjarnir í garð vinaþjóða sinna sem ég vona og veit að við erum.