143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku varð svolítill fjölmiðlastormur vegna laga um almannatryggingar sem samþykkt voru nýlega á Alþingi. Kergjan sem kom upp úr því einkenndist af áhyggjum af friðhelgi einkalífsins. Sá sem hér stendur reyndi að útskýra fyrir kjósendum sínum að aðalmarkmiðið hefði átt að vera, og átti að vera, að gera fólki auðveldara að fá réttar bætur á réttum tíma en ekki bara það eftirlit sem flestir aðrir stjórnmálamenn tala sífellt um. En það trúir því enginn og ég vil nefna tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er það vegna þess að það ríkir, vil ég meina, nær fullkomið vantraust gagnvart Tryggingastofnun ríkisins. Notendur hennar upplifa sig sjálfkrafa sem sakborninga og áhyggjur þeirra eru ekki um að upp komist um bótasvindl heldur að ekki sé komið fram við alla þessa glæpamenn sem … (Gripið fram í: Þetta er …)

Annar vandinn er sá að við höfum sem samfélag aldrei tekið umræðuna um hvernig við ætlum að haga upplýsingasöfnun og upplýsinganýtingu þegar kemur að almannatryggingum. Nú höfum við tölvutæknina og við höfum tækifæri til að gera fólki mögulegt að hafa betri stjórn á því hvernig upplýsingar eru geymdar, hvernig þær eru nýttar o.s.frv. Við hefðum kannski átt að spyrja þeirrar spurningar á sínum tíma. Kannski gátum við það ekki, en þá ættum við að gera það núna. Hvernig gefum við fólki betri stjórn yfir upplýsingum sínum þannig að þegar við „dílum“ við almannatryggingakerfið sé það gert í meiri sátt við þá sem það varðar?