143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Síðustu vikur hefur verið mikið rætt um sýklalyf og áhrif þess á menn og dýr. Þetta er þörf umræða og ég hef lengi haft áhyggjur af því í hvað stefnir í þessum málum. Í Bændablaðinu fyrir um þremur vikum var góð samantekt á samspili sýklalyfja og matvæla. Það er áhugavert að skoða þessa umfjöllun um notkun sýklalyfja í samhengi við vaxandi kröfur hagsmunaaðila í verslun á Íslandi sem eru að stórauka innflutning og losa um skilyrði er varða bæði frosið og ferskt kjöt frá Evrópu.

Árlega er mikill fjöldi dauðsfalla í Evrópu og Bandaríkjunum rakinn til þess að fólk sé orðið ónæmt fyrir sýklalyfjum. Erlendis hafa sýklalyf verið notuð svo áratugum skiptir gegn sjúkdómum í mönnum og dýrum og sú notkun þykir eðlileg, enda er verið að tala um litla skammta til skemmri tíma og ákveðinn tími látinn líða á milli. Ofnotkun á þessum lyfjum þekkist þó erlendis. Hún felst í því að gefa dýrunum reglulega sýklalyf, blanda því saman við fóður og drykkjarvatn svo að þau innbyrði efnið og eru þannig notuð sem vaxtarhvetjandi efni. Dýrin ná þó ekki að losa sig alfarið við lyfin úr líkamanum fyrir slátrun og því berast þau yfir í menn við neyslu á matvælum. Þessi lyf safnast svo saman í mannslíkamanum sem myndar þannig ónæmi fyrir sýklalyfjum.

Ef einstaklingur er ónæmur fyrir sýklalyfjum verða til enn þá sterkari sýklar sem ómögulegt getur reynst að vinna á og geta leitt til dauða. Í ESB-löndum eru um 25 þús. dauðsföll árlega rakin til ofnotkunar sýklalyfja í landbúnaði.

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég fjalla um þetta er sú að staðan í þessum málum er langbest á Íslandi og í Noregi. Erlendis er lyfjunum blandað í dýrafóður en þau vandkvæði sem hafa komið upp hérlendis má að megninu til rekja til fóðurinnflutnings. Þetta bitnar helst á alifuglarækt en íslenskir alifuglaræktendur hafa vakið athygli erlendis fyrir þann árangur sem þeir hafa náð og eru íslenskir bændur mjög meðvitaðir um þá áhættu sem fylgir notkun sýklalyfja og gilda mjög strangar reglur um þessi mál hérlendis, skráning á lyfjanotkun auk prófunar á hrávöru. Við þurfum að hafa varann á (Forseti hringir.) því að þótt það sé talað um gæðavottun og traustar vörur er aldrei hægt að fullyrða hvort upptalin atriði eigi ekki við þær vörur.