143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil gera hér að umfjöllunarefni bankaskattinn. Um þann skatt tókst nokkuð góð samstaða í þinginu fyrir jólin. Hann á að afla ríkissjóði tugmilljarða tekna á næstu árum og skiptir auðvitað miklu máli í tengslum við uppgjör á þrotabúum hinna föllnu banka. Gerðar voru nokkrar breytingar á málinu í þinginu sem kunnugt er og skatturinn átti sér út af fyrir sig skamman aðdraganda.

Nú er fallinn dómur í Hæstarétti og vakti sérstaka athygli mína viðtal á föstudagskvöldið á Stöð 2 við Ragnar Hall lögmann um túlkun á þeim hæstaréttardómi. Nú er það svo að Ragnar Hall er reyndasti skiptastjóri sem við Íslendingar eigum og hann hefur verið okkur ráðagóður í skyldum málum og raungóður í viðureignum við erlenda kröfuhafa. Þess vegna leggur maður auðvitað sérstaklega við hlustir þegar hann tjáir sig um þessi efni. Mér virðist þessi dómur og hugsanleg túlkun hans kalli á það að menn hér í þinginu, í efnahags- og viðskiptanefnd einkanlega, taki málið og rýni það hvort dómurinn hafi einhver áhrif á skattinn, hugsanlegt lögmæti hans og hvort við þurfum að hafa einhverjar áhyggjur af því að þessar tekjur náist ekki með þessum hætti. Það er gríðarlega mikilvægt vegna þeirra stóru fjárhæða sem hér eru annars vegar en líka vegna þess að við í þinginu stöndum hér saman öll sem eitt í þingflokkum þvert frá vinstri til hægri til að tryggja íslenska hagsmuni í þessu efni. Þess vegna væri miður ef ekki væri nægilega vel um málið lagatæknilega búið í þinginu.