143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Atvinnuleysisdraugurinn hefur gert Suðurnesjamönnum lífið leitt um langa hríð. Nú hillir undir jákvæðar breytingar í þeim efnum. Ýmis atvinnuverkefni eru í undirbúningi og önnur eru nú þegar farin af stað.

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði til dæmis fyrir skömmu fjárfestingarsamning við forsvarsmenn líftæknifyrirtækisins Algalíf. Algalíf er staðsett í Reykjanesbæ og framleiðir örþörunga. Úr þeim er unnið virka efnið astaxanthin. Það er sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur auk þess að vera neytt sérstaklega í hylkjaformi.

Fjárfestingarsamningurinn við Algalíf er gerður með þeim fyrirvara að hann komi ekki til framkvæmda fyrr en fullnægjandi lagastoðar hefur verið aflað frá Alþingi en ég á ekki von á öðru en að þingmenn allra flokka muni staðfesta samninginn.

Þess má geta að fyrirtækið Bláa lónið hefur einnig um árabil ræktað þörunga og framleitt vinsælar hágæðasnyrtivörur úr þeim. Þörungaframleiðsla er að mínu mati mjög eftirtektarverður iðnaður sem gefur mikla möguleika til framtíðar. Skilyrði eru sérstaklega hagstæð á Íslandi fyrir þörungaframleiðslu. Ástæðurnar eru meðal annars hreint vatn, næg orka og hæft starfsfólk.

Að lokum langar mig til að nefna fleiri atvinnuverkefni á Suðurnesjum sem gefa manni von um bjartari tíma með blóm í haga, t.d. fiskeldisstöðina Stolt Sea Farm Reykjanesi. Þar er um milljarðafjárfestingu að ræða. Í stöðinni er ræktuð fisktegund sem ber nafnið Senegalflúra. Seiðum hefur þegar verið sleppt í tankana og verður spennandi að fylgjast með hvernig eldið og reksturinn gengur. Stöðin nýtir affallsvatn úr jarðvarmavirkjuninni á Reykjanesi og ræktar verðmætan fisk til útflutnings.

Klasaverkefnið Codland gengur vel en það miðar að því að auka verðmæti sjávarfangs, t.d. að framleiða ensím úr slógi. Flugstöð Leifs Eiríkssonar fer stækkandi vegna ört vaxandi ferðamannastraums til landsins o.s.frv. Af þessari upptalningu má sjá að margt er að gerast og tækifærin eru svo sannarlega til staðar. Það er mikill kraftur í fólkinu á Suðurnesjum og ég vona að atvinnuleysisdraugurinn þar heyri brátt sögunni til.