143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrir um það bil þremur vikum fór fram hér í þingsal mjög góð umræða, sérstök umræða, um verslun og viðskipti í landinu og vöruverð og þar á meðal þá staðreynd að þrátt fyrir verulega styrkingu krónunnar undanfarið ár hefur verð á innfluttum vörum ekki lækkað. Umræðan var mjög góð og þörf en svo vill til að hennar var hvergi getið í nokkrum einasta fjölmiðli á Íslandi, það heyrðist ekki tíst um þessa umræðu. Ég velti fyrir mér af hverju. Meira að segja á RÚV, sem kallar sig fjölmiðil í almannaþágu, var ekki bofs um þetta mál. Ég velti fyrir mér hvort Ríkisútvarpið telji að umræða um hátt verð á innfluttum vörum, og það að þær lækki ekki þegar krónan styrkist, sé ekki frétt sem eigi erindi við almenning.

Það vakti hins vegar sérstaka athygli mína nú fyrir nokkrum dögum að þá rataði forstjóri stærsta verslunarfyrirtækis á Íslandi meðal annars í kvöldfréttir Ríkisútvarpsins og fékk þar drjúgan tíma til að upplýsa að stór hluti þjóðarinnar biði í ofvæni eftir að fá að sökkva tönnunum í ost úr buffala-, geita- og ærmjólk. Ég vissi reyndar ekki að sú þörf væri til staðar en það sýnir bara að maður er ekki í nógu góðum tengslum. En ég hlýt að spyrja mig hvað ráði fréttamati fjölmiðla og þá sérstaklega Ríkisútvarpsins. Getur verið að menn hafi ekki áhuga á því að hér sé vöruverð hátt og að það lækki ekki þegar gengi krónunnar styrkist eða eru það auglýsingadálkasentimetrar og auglýsingamínútur sem ráða fréttaflutningi? Hvernig er þá komið fyrir ríkisfjölmiðlinum? Maður hlýtur að spyrja hann sérstaklega. Eru það kaupmennirnir í landinu sem stjórna fréttatímum Ríkisútvarpsins eða hefur fréttastjóri Ríkisútvarpsins og hans góða fólk ekki áhuga á háu vöruverði sem almenningur í landinu borgar?