143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Flokksráðsfundur Vinstri grænna um helgina sendi frá sér merkilega ályktun sem ég held að eigi erindi við alla. Með leyfi forseta, langar mig að lesa hana og er þetta ekki löng lesning:

„Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Grand Hóteli 7.–8. febrúar 2014, vill að ákærur á hendur þeim níu einstaklingum sem voru á meðal þeirra sem héldu uppi friðsömum mótmælum í Gálgahrauni verði afturkallaðar. Ákærurnar eru gróf árás á tjáningarfrelsi í landinu og aðför að lýðræðislegum rétti fólks til að mótmæla, sem er tryggður í stjórnarskrá landsins. Ákærurnar fela í sér misbeitingu valds, slæmt fordæmi og eru jafnframt til þess fallnar að fæla fólk frá því að nýta stjórnarskrárbundinn rétt sinn til mótmæla.“

Ég hef fylgst með stjórnmálum í nærri 30 ár og stundum hefur borið á pólitískri íhlutun þegar kemur að ákæruvaldi eða dómstólum en ég hélt að það heyrði sögunni til. Til allrar hamingju fyrir Vinstri græna hafa fjölmiðlar ekki enn kveikt á málinu en kannski verður breyting þar á í dag. Og hvert er Vinstri hreyfingin – grænt framboð eiginlega að fara? Hefur þessi flokkur aldrei heyrt getið um aðskilnað löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds? Hér hikar flokkurinn ekki við að ganga inn á svið ákæruvaldsins og færa það undir hið pólitíska vald. Það er talað um að það þurfi nýtt millidómstig en það þarf ekki lengur. Pólitískur dómstóll Vinstri grænna hefur tekið að sér að leggja mat á einstök mál og hvort þau eru dómhæf eða ekki. Væntanlega láta þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki staðar munið hér, það eru örugglega hundruð mála í ákærumeðferð og það verður spennandi að sjá hvað kemur næst. Mun flokkurinn ekki krefjast þess í framhaldinu að ákærur verði felldar niður í fjölmörgum öðrum málum eða að krafist verði harðari refsingar í öðrum? Eða er þetta eins konar vildarvinakerfi sem Vinstri grænir eru að setja upp? Er pólitískur rétttrúnaður Vinstri grænna það sem koma skal í dómskerfinu, að sekt og sakleysi ráðist af flokksstimpli? Það er umhugsunarefni fyrir okkur öll.