143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka upp málefni Gjögurflugvallar í Árneshreppi. Hann er eini áætlunarflugvöllur í landinu sem ekki er með bundnu slitlagi og hefur staðið til í fjölda ára að leggja bundið slitlag á þann flugvöll. Það var hafist handa að byggja hann upp og keyra ofan í hann burðarlega í fyrra og stóð til að leggja á hann bundið slitlag í ár. Nú hefur komið í ljós að ekki hefur fengist fjármagn til að framkvæma það og þau tilboð sem voru gerð í að leggja bundið slitlag á völlinn voru yfir kostnaðaráætlun og ríkið eða Isavia treysti sér ekki til að bæta við þeirri fjárhæð sem til þurfti. Mér hefur verið sagt að ekki þurfi nema 10–15 milljónir. Það ríkir því alger óvissa um hvenær hægt er að ljúka við framkvæmdir á flugvellinum sem eru mjög brýnar. Þangað er flogið tvisvar í viku og völlurinn eins og hann er stenst ekki reglur og samninga sem í gildi eru.

Flugfélagið Ernir hefur sinnt þessum flugvelli í fjölda ára og hefur þurft að nota eins hreyfils flugvél sem er óásættanlegt fyrir farþega. Það er erfitt er að fljúga á völlinn eins og hann er á tveggja hreyfla flugvélum þar sem hætta er á skemmdum á vélunum. Ég tel það óásættanlegt, á þessu afskekktasta svæði landsins, hafi þjóðin ekki efni á að bæta við 10–15 millj. kr. til að ljúka loksins því verki sem hefur staðið til í fjölda ára á því einangraða svæði sem um ræðir. Stóran hluta ársins eru þetta einu samgöngurnar við svæðið.

Ég skora á þá ríkisstjórn sem við höfum í dag að mæta svæðinu og byggðinni þarna með því að taka peninga úr einhverri skúffu í forsætisráðuneytinu til að ljúka þessu verki.