143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við þingmenn Pírata munum óska eftir sérstökum umræðum um nýsamþykkt lög um almannatryggingar með fókus á hvaða áhrif þau hafa á umbjóðendur TR. Það sem ég hef tekið eftir í umræðunni undanfarið eftir að málið komst loks í fréttirnar og fólk fékk skilning á því hvaða áhrif lögin hafa á friðhelgi einkalífs öryrkja, er að það er ljóst að við þurfum að gera eitthvað til þess að tryggja að fólk búi ekki við mikið óöryggi og vanlíðan út af lagasetningu.

Ég hefði aldrei samþykkt þessi lög hefði ég vitað hve langt væri farið þar inn á friðhelgi einkalífs öryrkja. Við vitum að það eru stjórnarskrárvarin réttindi að njóta friðhelgi einkalífsins hvort sem maður er öryrki, fátækt gamalmenni eða sjúklingur eða hvítflibbi.

Mér finnst nauðsynlegt að við skoðum af hverju svo mikið vantraust ríkir gagnvart Tryggingastofnun. Mér finnst nauðsynlegt að við bregðumst við því. Mér finnst nauðsynlegt að við hættum að líta svo á og láta það koma fram í orðum okkar að það sé réttlætanlegt að hafa af fólki grundvallarmannréttindi, vegna þess að það er svindl. Ég held að almennt séð og vil trúa því að þingmenn hafi ekki gert sér grein fyrir hversu langt er farið inn á friðhelgi einkalífs öryrkja þegar þeir samþykktu lögin um almannatryggingar. Því kalla ég eftir umræðum um málið á yfirvegaðan hátt og ég vil biðjast velvirðingar á því að hafa ekki haft tök á að vita nákvæmlega um hvað málið snerist þegar ég greiddi því atkvæði.