143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu.

44. mál
[14:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um tvær mikilvægar þingsályktunartillögur er varða samstarf okkar Íslendinga á sviði heilbrigðismála við Færeyjar og Grænland. Ég fagna því að þessi mál hafi verið afgreidd vel og snögglega út úr utanríkismálanefnd vegna þess að hér er um að ræða tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að láta gott af okkur leiða í því að vinna náið saman með okkar helstu nágrönnum og bestu vinum í Færeyjum og Grænlandi að því að útvíkka samstarf og auka fagþekkingu og ná einnig fram aukinni hagræðingu í verkefnum á sviði heilbrigðisþjónustu.

Það var ánægjulegt fyrir okkur í Vestnorræna ráðinu að hitta ráðherra heilbrigðismála allra þessara landa núna í janúar í Færeyjum og finna þann mikla vilja að gera betur og vinna nánar saman í þessum málaflokki. Við skulum því öll fylgjast grannt með því að þetta komist allt saman hratt og vel til framkvæmda. Ég skora á þingheim að fylgja því eftir ásamt mér, og þá sérstaklega hv. þm. Össur Skarphéðinsson.